Stofnaður hefur verið Ferðaábyrgðasjóður, í vörslu Ferðamálastofu , til að aðstoða ferðaskrifstofum að standa undir endurgreiðslum á pakkaferðum sem hafa verið aflýstar eða afbókaðar vegna heimsfaraldursins.

Með tilkomu hans gefst ferðaskrifstofum kostur á að sækja um lán sem ætlað er að standa undir lögbundnum endurgreiðslum til neytenda vegna pakkaferða sem áætlaðar voru á tímabilinu 12. mars til og með 30. júní og var annað hvort aflýst eða þær afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Í frumvarpi sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram þann 24. júní síðastliðinn segir að fjárþörf fyrir rekstri sjóðsins verði um 4,5 milljarðar króna. Fjárhagsmat frumvarpsins byggist á upplýsingum frá aðilum sem saman standa fyrir um 45% af veltu í sölu pakkaferða á hverjum tíma. Í heild er fjöldi bókana áætlaður á bilinu 15–20 þúsund talsins.

Ferðamálastofa tekur við og afgreiðir lánsumsóknir fyrir hönd Ferðaábyrgðasjóðs og hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Hægt verður að sækja um hjá sjóðnum í byrjun næstu viku.

Ferðamálaráðherra hefur jafnframt hafið undirbúning þess að leggja af núverandi tryggingakerfi með því að setja á stofn tryggingasjóð sem til framtíðar muni sjá um að tryggja neytendum endurgreiðslur komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu, segir í tilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.