Félag atvinnurekenda segir að áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar, og fleiri þingmanna, vera meingallað í umsögn félagsins til allsherjar og menntamálanefndar Alþingis.

Félagið segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með litlar breytingar á frumvarpinu frá því í fyrra og að ekkert skuli hafa verið gert með leiðréttingar á rangfærslum í frumvarpinu og vel rökstuddar og málefnalegar ábendingar FA og fleiri samtaka fyrirtækja um hvernig mætti sníða af því gallana.

Í umsögn FA segir:

„Félag atvinnurekenda styður markaðs- og verzlunarfrelsi á öllum mörkuðum, líka áfengismarkaðnum. Hins vegar getur félagið með ekki með nokkru móti lýst yfir stuðningi við það meingallaða frumvarp sem hér er til umfjöllunar.“

FA segja einnig að umhverfið með viðskipti með áfengi yrði áfram óheilbrigt ef frumvarpið yrði samþykkt.

„Með samþykkt frumvarpsins yrði umhverfi viðskipta með áfengi áfram mjög óheilbrigt, í fyrsta lagi vegna þess að flutningsmenn þess virðast ekki skilja að öllu leyti núverandi lagaumhverfi, í öðru lagi vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að ganga alla leið í að aflétta hömlum á sölu og markaðssetningu áfengis og í þriðja lagi vegna þess að að sumu leyti eru settar á nýjar hömlur með frumvarpinu. Þetta gengur þvert á þau rök flutningsmanna að áfengi sé almenn neyzluvara. Óhætt er að fullyrða að yrði frumvarpið að lögum myndi það að þarflausu hafa mjög neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja sem stunda heildsölu á áfengi.“

Innheimta áfengisgjalds

FA segir að áfram sé í frumvarpinu rangfærsla um hver það sé sem standi skil á áfengisgjaldi. Í greinargerð segir að smásalan standi skil á áfengisgjöldum, en í raun séu það framleiðendur og innflytjendur sem standi skil á gjaldinu.

Sterkt áfengi aðskilið

Félag atvinnurekenda gagnrýnir áfram ákvæði frumvarpsins um að sterkt áfengi skuli haft aðskilið frá öðru áfengi, nema í sérverslunum. Þessi mismunandi meðhöndlun á sterku og léttu áfengi sé ómálefnaleg og ekkert rökstudd í greinargerð frumvarpsins.

Að lokum ítrekar FA stuðning sinn við afnám á hömlum við viðskiptafrelsi, á hvaða markaði sem það er:

„Félagið telur sig hafa lagt fram rökstuddar og málefnalegar tillögur um hvernig megi skoða þetta mál heildstætt, tryggja sem frjálsast viðskiptaumhverfi sölu og markaðssetningar áfengis og bæta úr stórum og augljósum göllum á frumvarpinu. Félagið getur ekki mælt með því að frumvarpið verði að lögum óbreytt; það myndi að þarflausu skaða hagsmuni fjölda fyrirtækja í framleiðslu og innflutningi áfengis. Félagið ítrekar tillögu sína um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar hvað varðar ríkiseinokunina, auglýsingabannið, skattpíninguna, aldursmörk viðskiptavina og aðrar þær hömlur sem lagðar eru á þessa atvinnugrein umfram aðrar.“