Microsoft og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gert samstarfssamning til þriggja ára um að kennarar og nemendur fá gjaldfrjálsan aðgang að Office hugbúnaði Microsoft. Einnig felst í samkomulaginu að allur Microsoft Office og Windows hugbúnaður er í boði á íslensku að því er fram kemur í fréttatilkynningu um málið.

Microsoft á Íslandi og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára sem tryggir íslenskum menntastofnunum aðgang að hugbúnaði frá Microsoft á hagstæðum kjörum. Samningurinn gerir einnig kennurum og nemendum kleift að nýta Office hugbúnað og skýjalausnir frá Microsoft á einkatölvur sínar án endurgjalds.

Microsoft er virkur þátttakandi í þeirri byltingu sem nú stendur yfir á kennsluháttum með aukinni hagnýtingu upplýsingatækni. Microsoft á í góðu samstarfi við kennara, nemendur og menntastofnanir um allan heim við þróun hugbúnaðar sem er sérsniðinn að skólastarfi.

Allt í boði á Íslensku

Vel hefur tekist til hér á landi og eru margar skólastofnanir að nýta sér Microsoft hugbúnað til að mæta kröfum um breytta kennsluhætti. Öll helstu forritin sem tilheyra Office hugbúnaði Microsoft, til dæmis Word, OneNote, Excel, PowerPoint og Outlook, eru í boði á íslensku.

Microsoft leggur mikla áherslu á þýða þennan hugbúnað á íslensku til að tryggja að allir geti nýtt sér hann og til að viðhalda íslenskunni í hinum stafræna heimi. „Íslenskan hefur verið hluti af hugbúnaðarþróun Microsoft síðan 1999 en það ár skrifuðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og Microsoft undir sinn fyrsta samstarfsamning,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

„Íslenska ríkið hefur sýnt Microsoft mikinn áhuga síðan þá og notar mikill meirihluti íslenskra skóla hugbúnaðarlausnir frá Microsoft í sínu starfi. Núna er einnig orðið mögulegt fyrir kennara og nemendur að fá gjaldfrjálsan aðgang að Office365 „Við erum stolt af því að bjóða upp á hugbúnað okkar á íslensku og þannig leggja okkar að mörkum við að bæta stöðu íslenskunnar í hinum stafræna heimi.“

„Þetta er mikilvægur samningur því hann tryggir skólum og menntastofnunum aðgang að hugbúnaði frá Microsoft á hagstæðum kjörum,“  segir Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri Menntamálaráðuneytisins. „Þá skiptir einnig miklu máli að hann veitir kennurum, nemendum og fjölskyldum þeirra endurgjaldslausan aðgang að hugbúnaði sem nýtist vel í námi, leik og starfi „Við leggjum mikla áherslu á að íslenska sé notuð hvarvetna í upplýsingatækni.“