Reykjavík Geothermal fékk rannsóknarleyfi vegna mögulegrar 100 MW virkjunar við Bolaöldu á Hellisheiði í byrjun desember að því er Fréttablaðið greinir frá, en leyfið gildir til 2021.

Svæðið liggur að hluta til aðliggjandi virkjunarsvæði Hellisheiðarvirkjunar, en eldri rannsóknir á svæðinu, gerðar af Íslenskum orkurannsóknum hafa gefið vísbendingar um mögulega virkjunargetu.

Gunnar Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri jarðhitafyrirtækisins segir málið skammt á veg komið, félagið sé ekki í samstarfi við neinn um málið, en virkjunarkostinn telja þeir áhugaverðan. Félagið var stofnað árið 2008 af Guðmundi Þóroddssyni, fyrrverandi forstjóra OR, en það hefur einbeitt sér að verkefnum erlendis.

„[V]ið teljum það hugsanlegt að þetta svæði standi undir 100 MW án þess að hafa rannsakað það,“ segir Gunnar Örn en félagið stefnir að því að fá einhverjar niðurstöður í möguleika svæðisins fyrir 2021.

„Ef það reynist áhugavert er auðvitað langt ferli fram undan.[...] Við ætlum bara að taka eitt skref í einu en teljum að það sé alveg rúm fyrir meiri orkuframleiðslu á Íslandi. Hvað hún verður notuð í verður tíminn bara að leiða í ljós.“