Við söluna á Leigufélaginu Klettur frá Íbúðalánasjóði til Almenna leigufélagsins fékk Virðing hf. 48,5 milljóna þóknun, eða sem nemur 0,48% af heildarsöluverðinu.

Þetta kemur fram í frétt Kjarnans um málið en Virðing átti lægsta tilboðið í að sjá um söluna, meðan hæsta tilboðið hljómaði uppá 0,84% af söluandvirðinu. Sex fjármálafyrirtæki voru beðin um að senda inn tilboð í söluna og skiluðu fimm þeirra innan tímamarka, og þar af var Virðing með hagstæðasta tilboðið fyrir Íbúðalánasjóð.

Munaði tæpum milljarði á tilboðum

Fær fyrirtækið 48.484.800 krónur þegar salan er endanlega frágengin, en Íbúðafélagið Klettur átti 450 leiguíbúðir. Það verður sameinað Almenna leigufélaginu sem er í eigu sjóða í rekstri GAMMA, en það bauð hæst og munaði 901 milljónum króna á þeirra tilboði og því lægsta.

Almenna leigufélagið mun eftir kaupin eiga um 1000 íbúðir sem standa í almennri leigu og hefur félagið skuldbundið sig til að halda umsaminni leigu núverandi leigutaka Kletts óbreyttri að minnsta kosti í 12 mánuði.