Félag atvinnurekenda hvetur sveitarfélögin til að fella niður fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði tímabundið, og lækka þá eftir það, til að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú ríki í efnahagslífinu vegna heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins .

Lagt er til að skatturinn falli niður í tvo til þrjá mánuði, og lækki þar eftir til frambúðar. Eru aðgerðirnar sagðar myndu stuðla að áframhaldandi rekstri og launagreiðsla fyrirtækja. Tekjutap vegna niðurfellingarinnar er sagt „einungis brot af þeim milljarðatekjum, sem runnið hafa í sveitarsjóðina vegna hækkana fasteignamats á undanförnum árum.“

„Ljóst er að höggið vegna heimsfaraldursins mun verða þungt fyrir mörg fyrirtæki og ekki eingöngu í ferðaþjónustu og veitingageiranum þótt þau fái höggið fyrst. Eftirspurn hefur dregist hratt saman í samfélaginu og flest fyrirtæki sjá fram á mikla erfiðleika,“ segir meðal annars í erindi félagsins.

Þá eru fyrri áskoranir félagsins um lækkun fasteignaskattsprósentu, til að koma til móts við miklar fasteignamatshækkanir og þeirri auknu skattbyrði sem þeim hefur fylgt, ítrekaðar.