Virkir notendur á Facebook eru nú orðnir tveir milljarðar. Nemur fjöldin um fjórðungi af öllum íbúum jarðarinnar og rúmlega helmingi af öllum þeim sem notað internetið. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Facebook er þar með fyrsti samfélagsmiðillinn til að ná tveimur milljörðum virkara notenda. YouTube greindi nýlega frá því að notendur þeirra væru 1,5 milljarður á meðan notendur Instagram sem er í eigu Facebook eru um 700 milljónir og notendur Twitter eru 328 milljónir

Þessi merki áfangi kemur einungis nokkrum dögum eftir að Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook gaf það út að það væri ekki ekki nóg fyrir fyrirtækið að bæta bara við sig nýjum notendum. Þetta sagði hann við kynningu á nýju markmiði Facebook um að hjálpa fólki við að byggja upp sterk tengsl til að berjast gegn hreyfingum einangrunar- og þjóðernissinnum um allan heim.

„Við höfum unnið að því að tengja heiminn en nú ætlum við að færa fólkið í heiminum nær hvert öðru" Sagði Zuckerberg í færslu á Facebook síðu sinni síðastliðinn fimmtudag.