Íslandspóstur (ÍSP) mun frá 250 milljónir króna frá eiganda sínum á næsta ári fyrir að veita alþjónustu á landinu. Upphæðin verður greidd út í upphafi árs en reynist kostnaður við alþjónustu minni mun ÍSP þurfa að greiða mismuninn til baka. Þetta felst í bráðabirgðaákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Pósturinn vildi á móti tæplega tvöfalt hærri upphæð.

Mér bréfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (SRN) var PFS falið að útnefna alþjónustuveitanda fyrir næsta ár. Var það gert eftir að samningaviðræður milli ráðuneytisins og ÍSP höfðu siglt í strand. Ný lög um póstþjónustu taka gildi um áramótin og fellur einkaréttur ríkisins á bréfum þá niður og viðbúið að samkeppni hefjist á markaðnum. Einum rekstrarleyfishafa, það er Póstinum, verður þó skylt að veita þjónustu á landinu öllu, á sama verði alls staðar, þó að um óarðbær svæði sé að ræða. Greiðslunni er ætlað að vera endurgjald fyrir umrædda þjónustu.

Í ákvörðun PFS kemur fram að sem stendur sé enginn annar aðili en ÍSP væri bær til þess að veita umrædda þjónustu að svo stöddu. Bráðabirgðaákvörðun PFS var kynnt SRN og ÍSP.

„ÍSP stendur frammi fyrir því um þessar mundir að tekjuflæði fyrirtækisins sem skýrist af ytri breytingum og viðbrögðum fyrirtækisins við þeim, krefst þess að útreiknað varúðarframlag að upphæð 490 milljónum verði í heild sinni eða að mestu leyti til reiðu svo fljótt sem auðið er. Fyrirtækið hefur að svo stöddu borð fyrir báru til að fjármagna sjálft hreinan kostnað af alþjónustu,“ segir í athugasemdum ÍSP.

Í ákvörðun PFS er vikið að þeim breytingum sem þingið gerði á frumvarpi til nýrra póstlaga áður en lögin voru samþykkt. Breytingin felur í sér að Pósturinn verður að bjóða sama verð á alþjónustu sinni um land allt en viðbúið er að það leiði til þess að fyrirtækið verði verðlagt út af markaði á virkum markaðssvæðum. Að mati PFS er eðlilegt að ríkið beri kostnaðinn af þessari kvöð.

Tekið er fram að um bráðabirgðaákvörðun er að ræða en hún mun gilda þar til farið hefur fram gaumgæfileg skoðun á alþjónustu og alþjónustukostnaði. Sú vinna mun fara fram á næsta ári og að endingu tekin ný ákvörðun um efnið.

Fjárhagur ÍSP hefur verið slæmur undanfarið en fyrir rúmu ári fékk fyrirtækið 500 milljóna króna neyðarlán frá eiganda sínum til að mæta lausafjárþurrð. 500 milljónir króna til viðbótar komu í upphafi sumars en summunni var síðar breytt í hlutafé. Þá hefur PFS ákvarðað að ÍSP skuli frá ríflega 1,4 milljarð króna afturvirkt úr galtómum jöfnunarsjóði alþjónustu til að mæta alþjónustutapi undanfarinna fjögurra ára. Ekki liggur fyrir hvernig sú upphæð verður fjármögnuð en sennilega verður það gert með skattfé fari ÍSP fram á að fá fjárhæðina greidda. Ráðist hefur verið í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem skila eiga 500 milljóna króna sparnaði árlega.

Athygli er vakin á því að nánar er fjallað um fjárhagsvandræði Póstsins og alþjónustukostnað í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.