Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hefur veitt innherja í bandarísku fyrirtæki 22 milljónir dollara fyrir að veita upplýsingar um vinnuveitandann og hugsanleg brot á lögum. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttaveitunnar.

Ekki hafa verið veittar upplýsingar um aðilann né fyrirtækið sem hann starfar hjá. Þó er um að ræða næst stærstu peningaverðlaun sem eftirlitið hefur veitt. Metið var slegið árið 2014, þegar innherja voru veittar 30 milljónir dollara.

Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hefur frá árinu 2011 greitt allt að 100 milljónir Bandaríkjadala fyrir upplýsingar frá innherjum. Samkvæmt reglum eftirlitsins, eru upphæðirnar reiknaðar sem hlutfall hugsanlegra sekta.