Eigandi lóðarinnar að Borgarholtsbraut 39 á Kársnesi fær ekki að reisa fjórbýli á henni. Nágrannar höfðu kært byggingarleyfið á þeim grunni að húsið myndi skerða útsýni þeirra en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) felldi leyfið úr gildi á öðrum grunni. Örlítill munur á nýtingarhlutfalli varð byggingarleyfinu að falli.

Í byrjun síðasta árs fékk lóðarhafi leyfi til að rífa 185 fermetra timburhús sem staðið hafði á lóðinni. Hugðist hann byggja á henni 605 fermetra fjórbýli með sex bílastæðum í staðinn. Erindið var grenndarkynnt gagnvart nágrönnum og bárust nokkrar athugasemdir. Var það afstaða byggingarfulltrúa að fyrirhuguð bygging væri of fyrirferðarmikil enda færi nýtingarhlutfall lóðarinnar út 0,18 í 0,78.

Eigandinn lagði fram aðra umsókn síðasta haust. Fyrirhuguð bygging hafði þá minnkað um tæplega fjórðung, varð 465 fermetrar í stað 605. Nýtingarhlutfallið varð þá 0,6. Það flaug í gegn hjá byggingarfulltrúa en mætti andstöðu íbúa að Borgarholtsbraut 40. Ástæðan var sú að væntanleg bygging myndi skerða útsýni til suðurs og að skuggi yrði á palli eignarinnar þegar sól væri lágt á lofti. Slíkt myndi óumflýjanlega rýra verðmæti hennar.

Munaði 0,02 á lóðinni við hliðina á

Á svæðinu er ekkert deiliskipulag í gildi en að sjálfsögðu er þar gildandi aðalskipulag. Af hálfu Kópavogsbæjar var þeim rökum teflt fram fyrir nefndinni að fyrirhuguð uppbygging samræmdist meginmarkmiði aðalskipulagsins um þéttingu byggðar með góðri nýtingu á landi. Þá hefði fyrirhuguð bygging verið lækkuð frá upphaflegri áætlun, hæð hússins í samræmi við nærliggjandi hús og það samræmdist götumyndinni.

Eigandi lóðar númer 39 sendi einnig inn athugasemdir fyrir nefndinni. Benti hann á að skuggi félli ekki á pall nágrannans og ekki heldur lóðina sjálfa á jafndægrum. Þá væri réttur til útsýnis ekki lögvarinn og af þeim sökum engar ástæður fyrir hendi sem réttlætt gætu það að fella leyfið úr gildi.

Það gerði ÚUA engu að síður. Í niðurstöðu nefndarinar sagði að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,60 en til samanburðar væri nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða á bilinu 0,34 til 0,47. Frá því væri ein undantekning hvað varðaði Borgarholtsbraut 41, þar væri nýtingarhlutfallið 0,58.

„Telja verður að með umþrættu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerist á lóðum við umræddan hluta Borgarholtsbrautar að ekki hafi verið skilyrði til þess að grenndarkynna umsóknina, enda verður að telja að umdeild hækkun nýtingarhlutfalls hafi óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur,“ sagði í niðurstöðu nefndarinnar. Af þeim sökum var leyfið fellt úr gildi.