Rekstraraðila skíðasvæða hér á landi hefur verið gert að bæta einstaklingi þrjú skíðakort, sem ekki var unnt að nota á tímabili vegna sóttvarnaráðstafana á síðasta ári, með útgáfu nýrra skíðakorta sem gilda yfir sama tímabil á næsta ári og lokað var á því síðasta. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.

Umþrætt mál er rakið til þess að sóknaraðili hafði í lok nóvember 2019 fest kaup á þremur skíðakortum í lyftur skíðasvæða varnaraðila fyrir veturinn 2019 til 2020 og greitt fyrir þau 75 þúsund krónur, en svo bar við að skíðasvæði varnaraðila voru lokuð frá 20. mars 2020 og það sem eftir lifði vetrar vegna sóttvarnatakmarkana heilbrigðisyfirvalda í kjölfar útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.

Krafðist sóknaraðili þess að fá lokunartímabilið bætt með þremur nýjum skíðakortum fyrir jafnlangt tímabil, einu skíðakorti fyrir heilan vetur eða endurgreiðslu, en varnaraðili vildi ekki verða við kröfu hans.

Bar fyrir sig force majeure

Varnaraðili bar fyrir sig fyrirvara á vefsvæði skíðasvæðanna um að vetrarkort væru ekki endurgreidd, jafnvel þótt lítið yrði af vetri vegna veðurs. Benti hann á að veturinn 2019 til 2020 hafi skíðasvæði hans verið opin í 51 dag en til samanburðar hafi einungis verið opið í 40 daga á svæðunum veturinn 2018 til 2019. Ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda hafi þannig ekki leitt til þess að not sóknaraðila á kortunum hafi verið skert umfram það sem sóknaraðili mátti vænta þann vetur.

Taldi varnaraðili jafnframt að force majeure ætti við í málinu vegna óvæntra og óviðráðanlegra aðstæðna, enda hafi honum verið ómögulegt að uppfylla skuldbindingu sína gagnvart sóknaraðila vegna strangra samkomutakmarkana á þeim tíma.

Efndaskyldan talin virk að nýju

Kærunefnd taldi fyrirvara varnaraðila um takmarkaðan vetur vegna veðurs ekki geta haft áhrif á kröfu sóknaraðila, enda væri téð lokun ekki tilkomin vegna veðurs.

Þá taldi kærunefnd að áhrif faraldursins gætu talist force majeure og þannig leist samningsaðila undan skuldbindingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Óumdeilt væri að varnaraðili hefði ekki getað efnt samninginn á umræddu tímabili en ekki v´ri hjá þí komist að líta til þess að efndaskyldan geti orðið virk að nýju þegar hinar óviðráðanlegu hindranir væru ekki lengur til staðar.

Í því samhengi taldi kærunefnd ekkert hafa komið fram sem benti til þess að varnaraðila væri nú ómögulegt að efna samninginn að fullu og því ekki um aðstæður að ræða sem réttlættu að varnaraðili losnaði undan samningsskuldbindingu sinni. Var honum því gert að afhenda sóknaraðila þrjú skíðakort til notkunar, sem gilda á tímabilinu 20. mars til 1. maí 2022.

Úrskurðurinn var kveðinn upp í september síðastliðnum af Hildi Ýri Viðarsdóttur, lögmanni og formanni nefndarinnar, Ívari Halldórssyni lögfræðingi og Jóni Rúnari Pálssyni lögmanni.