Félagið ÞA Veitingar ehf. hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum 1,4 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá 1. nóvember 2018, að frádreginni 253 þúsund króna innborgunar, vegna ólögmætrar uppsagnar. Deila málsaðila inniheldur golf, veiðiferð og stór orð.

Starfsmaðurinn fyrrverandi er matreiðslumeistari með áratugareynslu meðal annars af veitingahúsum, úr veiðihúsum og veisluþjónustu. Eigendur ÞA Veitinga hafa einnig mikla reynslu úr geiranum en árið 2017 tók félagið yfir veitingarekstur í Golfskálanum í Grafarholti.

Matreiðslumaðurinn hóf störf hjá félaginu sama ár, fyrst um sinn sem verktaki, og sá um veislur fyrir félagið. Eftir nokkra mánuði stóð honum til boða að kaupa sig inn í ÞA Veitingar og varð það úr. Hélt hann áfram störfum sem verktaki þar til 1. júní 2018 er hann varð starfsmaður félagsins. Í stefnu mannsins segir að hann hafi endurskipulagt veitingaþjónustu félagsins og fengið talsvert lof frá viðskiptavinum golfklúbbsins, bæði í veisluþjónustu og almennri veitingaþjónustu.

„Sæll við getum gleymt þessu samstarfi“

Deila málsins snerist um það hvort matreiðslumeistarinn hafi látið vita af því með fyrirvara að hann hygðist taka sér frí í september 2018 til að skreppa í tvær veiðiferðir. Taldi hann sig hafa gert það og að engar athugasemdir hafi verið gerðar. Messufall hafi orðið í þeirri fyrri en þegar kom að þeirri síðari, sem var þrír almennir orlofsdagar, hafi allt farið í háaloft.

„Sæll [matreiðslumeistari], [A] sagði mér að þú værir að fara í 5 daga frí. Hver verður með honum á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í hádegi og undirbúningi, hann sér ekki um þetta einn. Hvernig er hægt að láta hann vinna svona?“ segir í SMS-i sem annar forsvarsmanna ÞA Veitinga sendi matreiðslumanninum á þeim tíma. Sama dag bárust tvö önnur SMS frá sama aðila. „Sæll þú vinnur eins og um var samið“ og „Sæll við getum gleymt þessu samstarfi“. Fyrra SMS-i hafði ekki verið svarað.

Daginn eftir mætti matreiðslumaðurinn á starfsstöð til að ræða við hinn eiganda félagsins. Sá hafi brugðist hinn versti við og sagt að samstarfi þeirra væri slitið því kokkurinn væri alltaf í fríi. Því mótmælti starfsmaðurinn og sagðist aðeins hafa verið í fríi fimm daga árið 2018, þar af hefðu aðeins tveir verið orlofsdagar. Afréð hann að fara í fríið sitt að samtali loknu. Þegar hann sneri til vinnu eftir veiðiferðina hafi verið tekið á móti honum með svívirðingum og dónaskap, hann beðinn um að „drulla sér út“ ellegar yrði hringt á lögregluna.

Viðræður áttu sér stað milli málsaðila eftir þetta til að reyna að sætta deiluna en þær viðræður fóru út um þúfur. Höfðaði matreiðslumaðurinn því málið til innheimtu launa út september, launa í eins mánaðar uppsagnarfresti í október, ógreidds orlofs, orlofsuppbótar og desember uppbótar. Upphæðin hljóðaði upp á rúmlega 1,4 milljónir króna en að teknu tilliti til mótframlags atvinnurekanda var krafan tæpar 1,6 milljónir króna.

Ekki sannað að maðurinn hefði ítrekað verið frá vinnu

Félagið krafðist sýknu og taldi uppsögnina hafa verið fullkomlega lögmæta. Matreiðslumaðurinn hafi verið yfirmaður á starfstöð félagsins og hafi hvílt á honum skylda að tryggja að hún væri nægilega mönnuð. Hafi honum borið að hafa samráð um frítöku en það hafi hann ekki gert. Löng hefð væri fyrir því í íslenskum rétti að ólögmætt brotthvarf úr starfi teldist brottrekstrarsök og ólögmæt forföll matreiðslumeistarans réttlættu því uppsögnina.

Til vara, yrði fallist á það að uppsögnin hefði verið ólögmæt, fór félagið fram á að krafan yrði lækkuð vegna ólögmætrar, bótaskyldrar háttsemi mannsins. Hafi hann til að mynda lokað heimasíðu félagsins og tölvupóstfangi og þá sakaði félagið hann um þjófnað á lausafé. Bæri að skuldajafna tjóninu á móti kröfu hans.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að þrátt fyrir deilu um það hvort látið hafi verið vita af frítöku með nægum fyrirvara þá hafi matreiðslumaðurinn mætt aftur til starfa að fríi loknu. Taldi dómurinn að til þess að til brottrekstrar gæti komið hefði þurft að aðvara, áminna eða tilkynna starfsmanninum um það að myndi hann ekki láta af háttsemi sinni gæti komið til brottrekstrar úr starfi. Viðbrögð forsvarsmanna félagsins við frítökunni, það er áðurnefnd smáskilaboð, bentu til þess að ekki hefði verið tilkynnt um fríið með nægilega góðum hætti.

„Sú háttsemi [matreiðslumannsins] að fara í veiðiferðina þrátt fyrir viðbrögð [eigandans] [...] getur þó að mati dómsins ekki eins og sér falið í sér brot á starfsskyldum [hans] þannig að réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Þá verður hvorki ráðið af gögnum málsins né framburði aðila og vitna fyrir dómi að [matreiðslumaðurinn] hafi verið ítrekað frá vinnu,“ segir í dóminum.

Var því fallist á kröfu mannsins en þó þannig að hann hefði ekki forræði á mótframlagi í lífeyrissjóð. Var sú upphæð því dregin frá kröfu hans. Kröfum ÞA Veitinga um lækkun kröfunnar vegna meints bótaskylds tjóns var einnig hafnað. Hið sama má segja um kröfu um að dómkrafan yrði lækkuð vegna mögulegs skuldajafnaðar enda óheimilt að skuldajafna launakröfu. Að endingu var ÞA Veitingum gert að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað.