Nú er búið að færa frægasta pylsuvagn Íslandssögunnar, Bæjarins beztu, um set. Vagninn er nú á stéttinni fyrir framan Hótel 1919 og verður sölustaðurinn þar næstu mánuðina. Frá þessu er greint í frétt Morgunblaðsins . Staðið er í framkvæmdum á reitnum þar sem að vagninn hefur staðið síðastliðin 80 ár.

Sölulúga staðarins mun snúa í átt að Tollhúsinu og mun röðin verða í Tryggvagötu. Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu segir í samtali við blaðið að þau vonast til þess að geta flutt aftur á sinn venjulega stað fyrir jól. Ástæða flutninganna er sú að nú stendur til að reisa nýja spennistöð á Hafnastrætisreit.

Pylsuvagn Bæjarins beztu öðlaðist heimsfrægð þegar Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk sér pylsu í vagninum árið 2004. Einnig hafa James Hetfield, söngvari Metallica og leikarinn Charlie Sheen fengið sér pylsu í vagninum.