Í gær hélt Rússland upp á árlegan dag diplómata og í því tilefni var haldin athöfn í rússneska sendiráðinu. Þar mátti finna fjölda diplómata á borð við Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna, og Zhang Weidong, sendiherra Kína.

Anton V. Vasiliev, sendiherra Rússlands, hélt ræðu þar sem hann fjallaði um mikilvægi farsæls samstarfs á alþjóðavettvangi og tók hann síðan á móti gjöf frá Sigurði Helga Pálmasyni, safnstjóra myntsafns Seðlabanka Íslands.

Sigurður Helgi færði rússneska sendiráðinu persónulega gjöf úr hans eigu, en hann rak áður verslunina Safnaramiðstöðina á Hverfisgötu. Færði hann sendiráðinu eiginhandaráritun frá rússneska geimfaranum Yuri Gagarin sem hann veitti þegar hann stoppaði örstutt hér á landi.

Gagarin öðlaðist heimsfrægð árið 1961 þegar hann varð fyrsti maðurinn til að fara út í geim. Hann fór hring í kringum jörðina á Vostok geimfarinu og lenti heilu og höldnu. Hann dó síðan í flugslysi sjö árum síðar, einungis 37 ára gamall.

Örfáum mánuðum eftir að Gagarin hafði farið út í geim stoppaði hann stutt við á Keflavíkurflugvelli þar sem íslenskir fjölmiðlar tóku á móti honum. Gaf hann eiginhandaráritun á 10 króna seðil sem hann jafnframt dagsetti, 25. júlí 1961. Gagarin kom til landsins ásamt fríðu föruneyti á rússneskri Aeroflot flugvél sem meðal annars taldi fremsta eldflaugaverkfræðing Sovétríkjanna.

Sigurður Helgi gaf rússneska sendiráðinu bæði áritaða seðilinn frá Gagarin sem og farþegalistann úr Aeroflot vélinni og voru minjagripirnir þegar í stað hengdir upp á vegg í sendiráðinu.