Frumvarp til laga um húsnæðisbætur sem Eygló Harðardóttir og Elsa Lára Arnardóttir varaformaður velferðarnefndar fóru yfir á morgunfundi á Grand Hótel í morgun hefur það markmið að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda.

Hluti af mótvætisaðgerðum vegna kjarasamninga

Auknum húsnæðisstuðningi með húsnæðisbótum verður einkum beint að þeim sem hafa tekjur í tveimur lægstu tekjufimmtungunum.

Er það annað tveggja frumvarpa sem eru hluti af mótvægisaðgerðum ríkisins vegna kjarasamninganna 2015 en markmiðið er að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir 20-25% af ráðstöfunartekjum fólks. Liður í því er að byggðar verða 2300 íbúðir fyrir þennan hóp.

Eygló segir að engin ein lausn henti öllum

Frumvarpið er liður í markmiðum ríkisstjórnarinnar um að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform, þannig að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.

„Engin ein lausn mun duga fyrir öll heimili af því sem er búið að vera í umræðunni, eins og breytingin sem við gerðum á byggingareglugerð, lækkun vaxta eða hækkun bóta, því við getum ekki sett alla inn í sama kassa til að ná heilbrigðum og góðum húsnæðismarkaði“ segir Eygló Harðardóttir velferðarráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Stuðningur við leigjendur og kaupendur jafnaður

Húsnæðisstuðningur við leigjendur verður aukinn verulega og stuðningur hins opinbera við þá verður jafnaður við núverandi stuðning við kaupendur innan vaxtabótakerfisins.

Almennur stuðningur færist frá sveitarfélögum til ríkisins. Þó verða vaxtabóta- og húsaleigubótakerfin ekki sameinuð að svo stöddu. En nýju kerfi húsnæðisstuðnings við efnaminni leigjendur verður komið á þar sem um verulega hækkun verður að ræða fyrir þann hóp.

Tekið tillit til fjölbreyttara heimilisforms

Húsnæðisbætur munu miðast við fjölda heimilismanna óháð aldri þeirra og fjölskyldugerð, þó þannig að tekið verði tillit til tekna og eigna þeirra heimilismanna sem eru 18 ára og eldri. Frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna svo að bæði verður tekið tillit til heimila þar sem fleiri en einn heimlismanna hafa tekjur en einnig þegar einungis einn heimilismanna hefur tekjur og ber ábyrgð á framfærslu barna.

Eygló segir að markaðurinn standi sig ágætlega fyrir þá tekjumeiri, en fyrir þá fjárhagsminni þurfi að passa uppá félagsauðinn, svo þeir sem eru í verri stöðu hafi aðgang að húsaskjóli. Það sé hluti af því velferðarkerfi sem við viljum hafa hér á landi.