Á síðasta ári fluttust 1.684 færri til landsins umfram brottflutta en metárið 2017, eða 6.556 á móti 8.240. Hefur þó þessi svokallaði flutningsjöfnuður aldrei verið hærri en síðustu tvö ár að því er Hagstofa Íslands greinir frá, en næst þessum árum koma árin 2006 og 2007, þegar um 5.200 fleiri fluttust til landsins en frá því.

Í heildina fluttust 14.275 til landsins á árinu 2018, samanborið við 14.929 á árinu 2017, en alls fluttust 7.719 manns frá Íslandi árið 2018, sem er nokkru hærra en árið 2017 þegar þeir voru 6.689. Ef einungis er horft til erlendra ríkisborgara var þessi flutningsjöfnuður 6.621 manns á síðasta ári, meðan 65 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá landinu en til þess.

Flestir þeirra sem fluttu frá landinu fóru til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, í þeirri röð, en að sama skapi komu flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar frá þessum löndum. Flestir erlendir ríkisborgarar, eða 1.682 af 4.916 fluttust til Póllands, en þaðan komu líka 3.797 erlendir ríkisborgarar á síðasta ári.

Hafa Pólverjar verið fjölmennasti hópurinn sem flutt hefur til landsins allt frá árinu 1996, utan ársins 2004, þegar Portúgalskir ríkisborgarar fóru fram úr þeim. Fyrir 1996 voru það helst danskir ríkisborgarar sem fluttu til landsins.