Þegar heilbrigðiskrísan brast á var eitt það fyrsta sem gerðist að fjármagn fór að flæða frá nýmarkaðsríkjunum inn í Bandaríkin - mögulega einnig Sviss eða Bretland - þar sem er almennt minni áhætta. Sigríður Benediktsdóttir segir gjarnan um að ræða sjóði, sem stýrt er í þeim löndum sem búa við minni áhættu, sem sækja fjárfestingar til nýmarkaðsríkjanna.

„Til að byrja með hrundi gengi til að mynda Indónesíu vegna útflæðis fjármagns. Það sem við sáum gerast mun hraðar núna en í fjármálakrísunni er það að Seðlabanki Bandaríkjanna reis upp snemma í ferlinu og hét því að veita skiptilínur til sjö stærstu seðlabanka heimsins. Á meðal þeirra eru japanski seðlabankinn, en þegar Seðlabanki Bandaríkjanna hét þessu gerðu Japanirnir dollaraskiptasamninga við nýmarkaðsríkin í kringum sig - Kóreu, Indónesíu, Indland, Taíland - þannig var Seðlabanki Bandaríkjanna að styðja við lántakendur í dollurum um allan heim. Til viðbótar við þetta tilkynnti Seðlabanki Bandaríkjanna að þeir myndu endurgera kaupsamninga fyrir bandarísk ríkisskuldabréf frá hvaða seðlabanka sem er. Þetta er gert með hagsmuni bandaríska skuldabréfamarkaðarins að leiðarljósi. Ef mörg nýmarkaðsríki þurfa á sama tíma að verja sína eigin gjaldmiðla með því að selja bandarísk ríkisskuldabréf og beita þannig inngripum á gjaldeyrismarkaði þá er hætta á að dollaraskuldabréfamarkaðurinn fari á hliðina," segir Sigríður.

"Í raun færumst við sífellt nær því að vera með heimsseðlabanka og heimsgjaldmiðil sem heitir dollari. Það að bandaríski seðlabankinn sendi svona skýr skilaboð um að hann sé tilbúinn að viðhalda lausu fé í dollurum í gegnum krísur gerir það að verkum að dollarinn hefur mikinn trúverðugleika og verður sterkari. Það veldur því að fyrirtæki í nýmarkaðsríkjunum, til dæmis Indónesíu, sem ætla að skuldsetja sig í erlendri mynt vilja þá helst skuldsetja sig í bandaríska dollaranum. Mér fannst merkilegt að fylgjast með aðgerðum Seðlabanka Bandaríkjanna í upphafi heilbrigðiskrísunnar. Indónesíu rúbían var í frjálsu falli fyrri hluta aprílmánaðar 2020 en þegar það var orðið ljóst að bandaríski seðlabankinn hugðist styðja við með lausu fé í dollurum, snerist sú þróun við."

Góð skuldastaða

Sigríður telur að vönduð ríkisfjármál, líkt og hafi verið stunduð hér á landi síðastliðinn áratug, og góð skuldastaða veiti okkur svigrúm til að takast á við kreppuna sem varð í kjölfar heimsfaraldursins eða heilbrigðiskrísuna eins og hún kallar hana. Hún telur ríkið ekki eiga að skuldsetja sig umfram það sem er hagkvæmt í fjármálaútgjöldum. Hins vegar nefnir hún að það sé eflaust hagkvæmt til lengri tíma að skuldsetja sig til að koma í veg fyrir of mikinn samdrátt.

„Það hefur mikið verið haft fyrir því að lækka skuldir ríkissjóðs en það er meðal annars vegna þess að reynslan úr fjármálakrísunni 2008 sýndi okkur hversu mikilvæg góð skuldastaða getur verið á slíkum tímum," segir Sigríður. „Það má hins vegar velta því upp hvort ekki sé eðlilegt að leyfa fleiri kynslóðum að taka þátt í þessu höggi en ekki bara þeim sem sitja að kjötkötlunum núna."

Nánar er rætt við Sigríði í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .