Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá var málefnasamningur Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna undirritaður í morgun.

Í honum kemur meðal annars fram að útsvar Reykjavíkurborgar verði áfram í lögbundnu hámarki en fasteignaskattar verða lækkaðir úr 1,65% í 1,60%. Einnig verður Laugavegurinn lokaður fyrir bílaumferð allan ársins hring.

Einnig kemur fram að stefnt verði að því að fækka fagráðum og nefndum á vegum borgarinnar.

Þá verða mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð sameinuð í mannréttinda- og lýðræðisráð.

Menningar- og ferðamálaráð og Íþrótta- og tómstundaráð verða sameinuð í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Ferðamálin munu heyra undir borgaráð.

Umhverfis- og skipulagsráð fær heitið Skipulags- og samgönguráð.

Kosningu um hverfisráð verður frestað til áramóta þar til niðurstaða um hlutverk þeirra liggur fyrir.