Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu að matsáætlun með athugasemdum vegna fyrirhugaðra endurbóta á kísilverksmiðjunni í Helguvík, Reykjanesbæ, Verksmiðjan var rekin af United Silicon þar til félagið var lýst gjaldþrota á síðasta ári. Það er nú í eigu Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, eftir að bankinn tók verksmiðjuna yfir.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar voru eftirfarandi:

  • Skipulagsstofnun telur að vinna þurfi sérstaklega að kynningu og samráði gagnvart íbúum við vinnslu frummatsskýrslu svo hægt sé að reka verksmiðjuna í sátt við íbúa svæðisins. Í frummatskýrslu þarf að koma fram hvernig þessum þætti hafi verið sinnt og sérstök áhersla lögð á samráð um þau atriði sem áhyggjur íbúa beinast einna helst að.
  • Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir mögulegri hámarksmengun við óhagstæð veðurskilyrði.
  • Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir styrk snefilefna og hvort og þá hvernig þau geti borist út í umhverfið. Mikilvægt er að gerð sé grein áhrifum breytilegs afls ofna á loftgæði og viðbragðsáætlun ef ofnar séu ekki á fullu álagi.
  • Skipulagsstofnun bendir á að í mörgum athugasemdum almennings við tillögu að matsáætlun eru ábendingar frá fólki sem hefur fundið fyrir óþægindum og veikindum þegar kísilverið starfaði. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir áhrifum kísilversins á heilsu þar sem megin áhersla verði lögð á afleidd áhrif á heilsu af loftgæðum einkum af völdum mengunarefna og lyktar frá verksmiðjunni.
  • Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um þann kost að ræsa ekki verksmiðjuna aftur. Einnig þann kost að framleiðsla verði minni en fyrirhuguð áform um 100.000 tonna ársframleiðslu geri ráð fyrir.
  • Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir fráveitu og hugsanlegum áhrifum á grunnvatn vegna framkvæmdarinnar. Jafnframt þarf að gera grein fyrir áhrifum áætlaðra tæknilegra úrbóta á loftgæði, styrk og dreifingu efna. Einnig þarf í frummatskýrslu að leggja mat á samfélagsþætti líkt og vinnumarkað og íbúaþróun á nærsvæði kísilversins. Að auki þarf að fjalla nánar um ásýndarbreytingar vegna uppbyggingarinnar og sýna þarf ásýndarbreytingar frá fleiri sjónarhornum sem séu upplýsandi fyrir íbúa í nálægu þéttbýli.

Næsta skref í ferlinu er að Stakksberg vinni frummatsskýrslu í samræmi við matsáætlun og skili henni inn til Skipulagsstofnunar. Stofnunin fer yfir skýrsluna og metur hvort hún sé í samræmi við matsáætlun og ákvæði laga og reglugerðar. Frummatsskýrsla er svo kynnt á vef stofnunarinnar og í fjölmiðlum ásamt því að leitað er til umsagnaraðila, en kynningartími er alls 6 vikur, á þeim tíma gefst almenningi kostur að kynna sér framkvæmdina og koma athugasemdum sínum á framfæri.