Allir farþegar ferðaskrifstofa Primera í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi voru með tryggð flug í gær í allar þær ferðir sem þeir höfðu keypt af viðkomandi fyrirtækjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Andra Má Ingólfssyni, eiganda og framkvæmdastjóra Primera Travel Group.

Heimsferðir hafa samið um flug við Travelservice fyrir öll flug í vetur og verður engin röskun á flugum hjá fyrirtækinu og hafa Heimsferðir jafnframt boðið farþegum Primera Air sæti.

Sagt var frá því á mánudag að viðskiptavinir ferðaskrifstofanna Solresor og Bravo Tours, samtals um 1.250 manns, væru strandaglópar.

Bravo Tours í Danmörku er með 7 þúsund farþega á sínum vegum þessa vikuna í Danmörku. Allir farþegar eru sagðir hafa fengið sín flug í gær, en fyrirtækið samdi við tvö flugfélög til að taka við sínum farþegum og voru engir strandaglópar á vegum fyrirtækisins og öll flug tryggð fyrir framhaldið.

Solresor í Svíþjóð gat einnig komið öllum farþegum sínum á áfangastað í gær, og í dag er öllum farþegum tryggð óbreytt ferðaáætlun, meðal annars stórum hópum til Kalabríu á Ítalíu.

Engin röskun er sögð hafa orðið á flugum frá Finnlandi á ferðum farþega Matkavekka.

Þá segir að starfsfólk þessara fyrirtækja hafi lyft grettistaki við að tryggja öllum farþegum þær ferðir sem félögin hafi lofað farþegum sínum, og engin röskun verði á frekari áætlunum ferðaskrifstofanna.