Í júní flutti Icelandair um 488 þúsund farþega og voru þeir 11% fleiri en í júní á síðasta ári. Framboðsaukning á milli ára nam 11% og sætanýting var 85,4% samanborið við 83,7% á sama tíma í fyrra.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann sé ánægður með traffíkina á flest öllum sviðum starfseminnar. „Við erum að sjá aukna sætanýtingu í millilandaflugi, þrátt fyrir talsvert aukið framboð. Það er aukið umfang í fraktflutningum líka,“ segir Bogi Nils.

„Vöxturinn á þessu ári er í heild sinni minni en við vorum með í fyrra. Við erum mjög sátt varðandi þennan árangur og sér í lagi hvað varðar sætanýtinguna,“ bætir Bogi Nils við.

Afbókanir á hótelum

Farþegar Air Iceland Connect voru 33 þúsund í júní og fjölgaði um 9% á milli ára.  Framboð félagsins var aukið um 11% samanborið við júní 2015. Sætanýting nam 66,8% og jókst um 0,3 prósentustig á milli ára. Seldir blokktímar í leiguflugi fjölgaði um 37% á milli ára.  Fraktflutningar jukust um 25% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 5% samanborið við júní í fyrra og herbergjanýting var 80,0% samanborið við 84,5% á síðasta ári. Eftirspurn bókana með skömmum fyrirvara var minni en áætlað var ásamt því að meira var um afbókanir hópa en á sama tíma í fyrra.

Bogi minnist þó að nokkuð hafi verið um afbókanir í hótelrekstrinum. „Nýtingin er að minnka. Það er eitthvað um afbókanir hópa, sem við sáum ekki í fyrra,“ segir hann að lokum.