Farþegar Icelandair voru 208 þúsund í febrúar og fjölgaði um 9% milli ára, og sætanýting var 75,6% og jókst um 1,3 prósentustig. Þetta kemur fram í tilkynningu flugfélagsins til Kauphallarinnar .

Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 8% og námu þeir 832 milljónum talsins, og meðalflugleið var rétt rúmir 3.000 kílómetrar og lengdist lítillega.

Farþegum Air Iceland Connect fækkaði um tíund milli ára, en það er sagt skýrast öðru fremur af niðurlagningu flugs til Aberdeen og Belfast síðasta sumar. Sætanýting nam 66% og jókst um 3,4 prósentustig milli ára.

Fraktflutningar samstæðunnar jukust um 6%, en seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 16% vegna færri verkefna.

Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um fimmtung, en herbergjanýting féll um tæp 6 prósentustig, aðallega vegna lakari nýtingar á landsbyggðinni.

Fyrr í dag var sagt frá því að farþegum Wow air hafi fækkað um þriðjung milli ára í febrúar.