Við höfum verið að ganga í gegnum krefjandi tíma en þrátt fyrir það mælist aukin ánægja meðal starfsfólks,“ segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB). Friðrik var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni .

„Sem betur fer hefur okkur tekist vel að halda utan um fólk í gegnum þessar breytingar. Þær eru erfiðar og flóknar en okkur hefur tekist að tryggja að fólk taki þátt í verkefninu með okkur og finni fyrir stoltinu af því að taka þátt í breytingunum og ábyrgð á því að tryggja að þetta gangi vel. Þetta eru áhættusamar breytingar og allir starfsmenn hjá RB eru mjög meðvitaðir um að þeir eru ekki bara að mæta í vinnuna og forrita kóða. Þeir eru að gera breytingar á greiðslukerfum landsins sem geta til dæmis valdið því að fólk fær ekki launin sín á tilsettum tíma.“

Þessir krefjandi tímar sem hann vísar til eru þær breytingar sem eru að verða á bankakerfinu, meðal annars með innleiðingu nýrra grunnkerfa. „Við gangsettum fyrsta bankann, Landsbankann, í þessu nýja kerfi í nóvember,“ en kerfið heldur utan um innlán og greiðslur hjá bankanum. „Svo förum við með Íslandsbanka í loftið í haust. Þegar verið er að breyta grunninnviðum í fjármálakerfinu þá er verið að fást við æðakerfið í efnahagslífinu. Þetta eru kerfin sem færa fjármuni frá einstaklingunum til fyrirtækjanna og launagreiðslur til einstaklinganna og fleira. Ef þessi kerfiv irka ekki og hlutir berast ekki með réttum hætti þá er búið að klippa á súrefnið,“ segir Friðrik.

„Þetta er í eðli sínu áhættusöm breyting. Til samanburðar var TSB-bankinn í Bretlandi, sem er með nokkrar milljónir viðskiptavina, að gera sambærilega breytingu í apríl. Í framhaldinu gat helmingur viðskiptavina TSB ekki opnað bankareikninginn sinn í nokkrar vikur.“

Breytingar sem hafa reynt á bankakerfið

„Breytingarnar hér á landi hafi reynt mikið á bankana og RB en með samhentu átaki bankanna og RB hefur allt verið gert til að koma í veg fyrir röskun gagnvart viðskiptavinum bankanna. Við lentum sem betur fer ekki í neinu sambærilegu og TSB-bankinn en hefði það gerst hefðum við verið í verri stöðu því hér búum við við rauntímagreiðslumiðlun og treystum gríðarlega mikið á rafeyrinn í formi debet- og kreditkorta.“

Fjármálakerfið á Íslandi er miklu tengdara samfélaginu en gengur og gerist þar sem rauntímagreiðslumiðlun eins og við þekkjum hana er undantekningin frekar en reglan í heiminum. „Það er það sem opnunin á bankakerfinu erlendis snýst dálítið um, að koma á rauntíma greiðslumiðlun og tengja fjármálaþjónustuna dýpra inn í samfélagið,“ og því má segja að Íslendingar séu nokkuð langt á undan sinni samtíð hvað þetta varðar.

„Dæmi um þessi tengsl eru til dæmis hvernig bankakerfið tengist skattinum. Skattframtöl eru meira og minna orðin sjálfvirk. Þetta á líka við um hvernig fjárhagskerfi fyrirtækja tengjast lóðbeint inn í banka og miklu fleira sem við göngum út frá sem sjálfsögðum hlutum en eru fyrstu skrefin í umbreytingunum erlendis.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .