Gengi fasteignafélaganna þriggja sem skráð eru á Aðalmarkað kauphallar Nasdaq á Íslandi, Eikar, Regins og Reita, hefur verið á mikilli siglingu undanfarið ár. Til marks um það hefur gengi Eikar hækkað um nærri 63% síðastliðið ár, gengi Regins um tæplega 55% og loks gengi Reita um tæplega 50%. Aðeins eitt félag, SKEL Fjárfestingafélag (áður Skeljungur) hefur hækkað meira á tímabilinu eða um ríflega 73%.

Fasteignafélögin þrjú eru einnig á meðal þeirra fimm félaga sem hafa hækkað mest innan árs, ásamt Brim og SKEL. Gengi Eikar hefur hækkað um ríflega 31% innan árs, Reitir um tæplega 24% og Reginn um ríflega 20%. Gengi félaganna hefur einnig hækkað nokkuð myndarlega síðastliðinn mánuðinn og hefur gengi Reita hækkað um ríflega 13%, Eikar um ríflega 10% og Regins um ríflega 8% á tímabilinu.

„Eins og önnur félög fundu fasteignafélögin fyrir Covid-19 faraldrinum og endurspeglaðist það í verði þeirra skömmu eftir að faraldurinn barst til landsins. Eftir því sem liðið hefur á faraldurinn hafa áhrif hans á starfsemi fasteignafélaganna farið minnkandi og óvissan að sama skapi orðið minni. Greiðslugeta fyrirtækja hefur einnig styrkst jafn óðum frá því faraldurinn hófst og það vinnur með verðmati fasteignafélaganna, þar sem það minnkar líkurnar á að leigutakar geti ekki staðið í skilum á leigu," segir Ívar Ragnarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, spurður um hvað skýri miklar gengishækkanir fasteignafélaganna undanfarið ár.

Ívar segir tvo þætti til viðbótar geta skýrt gengishækkanir fasteignafélaganna. „Annars vegar hefur hlutabréfamarkaðurinn almennt verið að hækka og taka við sér eftir þó nokkrar lækkanir í byrjun faraldursins. Hins vegar hefur fasteignamarkaðurinn verið á mikilli siglingu og það ýtir undir verðhækkanir á fasteignafélögunum." Fasteignafélögin hafi einnig skilað mun betri afkomu í fyrra en árið áður. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði hafi jafnframt verið sterk undanfarið.

Hann bendir á að innrás rússneskra yfirvalda inn í Úkraínu hafi fyrst um sinn valdið talsverðri óvissu á mörkuðum. „Sú óvissa er að einhverju leyti enn til staðar en VIX vísitalan, sem mælir óstöðugleika á alþjóðamörkuðum, hefur farið lækkandi sem gefur tilefni til að ætla að fjárfestar telji að óvissa á mörkuðum hafi minnkað. Það eru góðar fréttir fyrir fasteignafélögin sem og önnur félög sem skráð eru á markað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .