Neikvæður viðsnúningur var á rekstri FÍ Fasteignafélags en félagið tapaði ríflega 13 milljónum króna á fyrri hluta árs samanborið við 173 milljóna króna hagnað á sama tímabili 2019. Hreinar rekstrartekjur drógust eilítið saman og námu 284 milljónum króna, rekstrarkostnaður jókst um 18 milljónir og nam 66 milljónum.

Matsbreytingar skýra að miklu leiti breytta afkomu en áhugavert er að þær voru jákvæðar um 69 milljónir króna á fyrri hluta árs en jákvæðar um 238 milljónir á sama tímabili fyrra árs. Rekstrarhagnaður félagsins var jákvæður um 287 milljónir á fyrri hluta árs en fjármagnsgjöld voru neikvæð um 303 milljónir.

Heildareignir félagsins námu rúmlega 12 milljörðum króna og eru nær allar eignir félagsins í fjárfestingaeignum. Skuldir þess námu 7,7 milljörðum í lok annars ársfjórðungs, þar af nær allt langtímaskuldir. Eigið fé félagsins nam 4,5 milljörðum og eiginfjárhlutfall 37%. Gert er ráð fyrir 30% eiginfjárhlutfalli til framtíðar.

38% af eignasafni félagsins er í skrifstofurými. 18% í hótelrekstri og 17% eru fasteignir fyrir sendiráð. Í lok annars ársfjórðungs voru allar fasteignir félagsins í fullri nýtingu.

Tekið er fram í árshlutauppgjöri félagsins að fjárfestingaeignir eru færðar á gangvirði, líkt og reiknisskilareglur kveða á um, og miðast virðið við núvirt sjóðsflæði einstakra eigna. Vegin ávöxtunarkrafa fjármagns hjá félaginu (WACC) er 5,01%. Skyldi ávöxtunarkrafan að lækka um 0,5% telur félagið að virði eigna hækki um 14% og virði eignanna því talsvert næmt fyrir breytingum á ávöxtunarkröfu.