Félagsbústaðir skiluðu 10,3 milljarða króna hagnaði á fyrri helmingi ársins. Hagnaðurinn er allur tilkominn vegna 10,8 milljarða matshækkunar á fasteignum félagsins. Bókfært verð eigna fjárfestingareigna var 112,6 milljarðar í lok júní. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.

Rekstrartekjur Félagsbústaða jukust um 10% milli ára og námu 2,5 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins. Tekjuaukningin skýrist af hækkun leiguverðs og stækkun eignasafnsins. Afkoma fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 1.221 milljón, samanborið við 1.049 milljónir árið áður. Handbært fé frá rekstri var 566 milljónir samanborið við 246 milljónir árið áður.

Heildareignir félagsins námu 114,5 milljörðum í lok ársins en þær jukust um 13,9% frá ársbyrjun. Eigið fé nam 59,1 milljarði, skuldir 51,0 milljarði og eiginfjárhlutfallið var því 51,7%.

Félagsbústaðir fjárfestu fyrir 2,2 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Fram kemur að félagið hafi keypt 54 fasteignir og selt 2 fasteignir á fyrri árshelmingi en áform voru um að fjölga leigueiningum um 61 á tímabilinu.

Félagsbústaðir er félag á vegum Reykjavíkurborg sem hefur það verkefni að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði í borginni. Sérstaklega var minnst á matshækkun fasteignasafnsins í árshlutauppgjöri borgarinnar en afkoma Reykjavíkurborgar var 13,8 milljörðum yfir áætlun . Í uppgjörinu má kemur fram að borgin hafi búist að afkoma Félagsbústaða yrði jákvæð um 435 milljónir króna á fyrri helmingi ársins.