Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir byggingarkostnað hér á landi lengst af hafa vaxið í takt við vísitöluhækkun á sama tíma og íbúðaverð hefur rokkað upp og niður. Á nýlegu málþingi um hagkvæmar íbúðir sem stofnunin kom að ásamt Íbúðalánasjóði og fleiri aðilum voru kynntar ýmsar nýjungar sem von er til að geti lækkað byggingarkostnað töluvert.

„Íslendingar hafa verið svolítið aftarlega á merinni, og einkennir það svolítið byggingarbransann að tími tækniskipta er mjög langur,“ segir Björn og nefnir samanburðardæmi.

„Allt annað gildir til að mynda um farsímann minn, þá datt einhverjum eitthvað snjallræði í hug í Kísildalnum í Kaliforníu fyrir hálfu ári síðan sem nú er komið í símann. Þessi tækniskiptatimi er mun sneggri í ýmsum öðrum iðnaði, en hefðir og reynsla hönnuða, byggingarstjóra, iðnmeistara og allra sem að húsbyggingum koma er sterk og það tekur langan tíma fyrir menn að breyta sínum háttum.“

Á málþinginu kynntu ýmsir aðilar þær lausnir sem þeir höfðu verið að þróa og féllst Björn á að gefa okkur stutt yfirlit yfir það sem þar var kynnt til sögunnar. „Nú er mikið verið að tala um aðrar lausnir, og eru margir aðilar farnir að nota mikið af forsmíðuðum og forsteyptum einingum eins og til dæmis þær sem Loftorka framleiðir í Borgarnesi,“ nefnir Björn.

„Einnig erum við með Modulus sem framleiða forsmíðaðar einingar í verksmiðju sinni í Lettlandi, en þar byrja þeir með hefðbundna timburramma, setja svo gifsplötur og einangrun og þannig búa þeir til létta veggi á færibandi, sem eru tilbúnir með rörum fyrir allar lagnir. Síðan eru þessar einingar fluttar tilbúnar hingað til lands. Svo má nefna Fibra hús, sem er mjög sérstök og séríslensk lausn, en á bak við það stendur bátasmiður sem hefur verið að smíða trefjabáta en er nú farinn að byggja hús úr þessu mjög svo sterka efni. Það var einnig gert í Þýskalandi fyrir um þremur áratugum síðan.“

Björn vonast til þess að lausnir eins og þessar geti lækkað byggingarkostnað umtalsvert. „Einnig get ég nefnt Þ.G. Verktaka, sem fóru að vinna mikið erlendis í hruninu, til að mynda í Noregi og á hinum Norðurlöndunum þar sem þeir kynntust allt öðrum byggingaraðferðum,“ segir Björn og segir okkur frá erindi Þorvaldar Gissurarsonar á málþinginu um lærdóm fyrirtækisins.

Björn segir það vera vandasamt en gríðarlega mikilvægt verkefni stjórnvalda að reyna að sjá til þess að sérstaklega ungt og efnaminna fólk geti komist í húsnæði við hæfi.

„Stjórnvöld eru að reyna sitt og er gott samráð og samvinna milli allra aðila sem að þessu koma, Íbúðalánasjóðs, Mannvirkjastofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar og Samtaka iðnaðarins sem starfa saman í Byggingarvettvanginum auk ráðuneytanna. En það verður samt að hafa hugfast að byggingarkostnaður er eitt, en fasteignaverð íbúða er allt, allt annað,“ segir Björn en hann segir byggingarkostnað á undanförnum árum hafa verið í kringum 300 þúsund krónur fermetrann.

„Meðaltal fasteignaverðs hefur auðvitað hækkað og lækkað eftir því hversu auðvelt er að fá lán. Ef stjórnvöld eða bankar til að mynda ætla að hjálpa þeim sem eru kannski yngri og efnaminni með hærra lánshlutfalli, þá rýkur íbúðaverðið upp, sem fyrst og fremst hjálpar þeim sem eiga íbúðir fyrir.“

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum, aukablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað , aðrir geta gerst áskrifendur hér .