Fastus hefur náð samkomulagi um kaup á Expert ehf., Expert kælingu ehf. og GS Import. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Stakkur, fyrirtækjaráðgjöf, var ráðgjafi kaupanda við kaupin.

Fastus, sem er dótturfélag ÍSAM, er þjónustufyrirtæki sem sér fyrirtækjum og stofnunum á heilbrigðissviði, og í rekstri tengdum matvælum og iðnaði, fyrir tækjum, búnaði og rekstrarvörum.

Expert, Expert kæling og GS Import eru þjónustufyrirtæki í veitinga- og verslunargeiranum, auk þess að þjónusta bændur og aðra viðskiptavini víða um land. Expert er dótturfélag EXP1 ehf. sem er í eigu Þóris Arnar Ólafssonar og Brynjars Más Bjarnasonar samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins. Expert kæling var í 59% eigu Expert samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Þá er GS Import í eigu Gísla Sigurjóns Þráinssonar samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Einar Hannesson, framkvæmdastjóri Fastus, segir þessa niðurstöðu vera mikið framfaraskref fyrir fyrirtækin og styrki stoðir undir öflugan og þjónustudrifinn rekstur.

„Þessi niðurstaða er ánægjuleg sem gefur fyrst og fremst tækifæri til aukinnar og enn betri þjónustu og ráðgjafar við viðskiptavini okkar“ segir Þórir Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Expert.