Bandaríska alríkislögreglan (FBI), hefur tekið mál Hillary Clinton, forsetaframbjóðenda Demókrata aftur upp. Rannsókn alríkislögreglunnar beinist sem fyrr að tölvupóstum Clinton. Frá þessu er greint í frétt breska ríkisútvarpsins (BBC).

James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, staðfesti þetta rétt í þessu. Fyrr á þessu ári leiddi rannsókn FBI til þess að Clinton yrði ekki sakfelld fyrir að senda leynilega pósta frá einkapósthólfi sínu, en Comey sagði athæfið bera vott um alvarlegt kæruleysi af hálfu Clinton.

Það að rannsóknin sé hafin aftur hlýtur að teljast til mikilla tíðinda ellefu daga fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Hillary Clinton leiðir skoðanakannanir að svo stöddu.