Bandaríska alríkislögreglan (FBI) er með til rannsóknar kaup kínverskra fjárfesta á 47% hlut í bandaríska nýsköpunarfyrirtækinu Icon Aircraft. Nefnd um erlenda fjárfestingu í Bandaríkjunum er einnig með málið til skoðunar.

Fyrirtækið hefur þróað litlar meðfærilegar flugvélar. Ástæðan fyrir rannsókn FBI eru ásakanir þess efnis að fjárfestarnir, sem njóta stuðnings kínverskra yfirvalda, hyggist nota tæknina í hernaðarlegum tilgangi í þágu Kína.

Í umfjöllun WSJ kemur fram að bandarískir hluthafar fyrirtækisins óttist að verið sé að hola fyrirtækið.

Kínversku fjárfestarnir segjast hins vegar hafa verið í góðri trú og hafi bjargað félaginu úr fjárhagserfiðleikum og verið sé að misnota eftirlitsstofanir gegn sér.