Melania Trump, forsetafrúin fyrrverandi, skrifaði ekki sjálf þakkarbréf til starfsfólks Hvíta hússins. Þess í stað fékk hún starfsmann innan veggja fyrrverandi heimilis síns til að sjá um að skrifa bréfin. CNN greinir frá þessu.

Eiginmaður Malaniu, Donald Trump, vék úr embætti forseta Bandaríkjanna í gær og tók Joe Biden við völdum í hans stað. Hefð hefur skapast fyrir því að forsetafrú Bandaríkjanna, og í sumum tilfellum forsetinn sjálfur, skrifi þakkarbréf til starfsfólks Hvíta hússins, enda ver starfsfólkið miklum tíma með fjölskyldu forsetans og myndast oft sterk tengsl milli starfsfólksins og forsetafjölskyldunnar.

Líkt og fyrr segir lét Melania það í hendur starfsmanns að skrifa bréfin, með þeim fyrirmælum að þau myndu hljóma líkt og þau væru frá henni komin. Skrifaði hún svo sjálf undir bréfin.

Heimildir CNN herma að undanfarnar vikur hafi Melania í raun verið búin að stimpla sig út úr hlutverki sínu. Hana hafi bara langað til að „snúa aftur heim“ og hún hafi ekki verið leið yfir því að vera á förum frá Washington og úr Hvíta húsinu.