Draupnir fjárfestingarfélag ehf., hefur selt 2.100.000 hluti í Skeljungi á verðinu 6,34 krónum per hlut eða fyrir um 13,3 milljónir króna. Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Skeljungs, á 98% hlut í félaginu að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar um viðskipti fjárhagslegra tengdra aðila.

Eftir viðskiptin á Draupnir 19.333.405 hluti í Skeljungi. Stærsti hluthafi í Skeljungi er SÍA II slhf. sem á 305 milljónir hluta í félaginu eða um 14,53% og á Arion banki 7,99% í olíufélaginu. Hægt er að sjá lista yfir stærstu hluthafa Skeljungs hér.

Gengi hlutabréfa Skeljungs hefur lækkað um 1,42% í dag í 51 milljón króna viðskiptum. Kaupgengi bréfa félagsins er 6,25 krónur og sölugengi 6,28 krónur. Þegar Skeljungur var aftur skráður á markað í lok árs í fyrra var verð á hverju bréfi félagsins 6,9 krónur og var það 6,36 við lokum markaða í gær sem nemur um 7,8 prósentustiga lækkun á gengi hlutabréfa félagsins.