Útgjöld í fjárlögum hafa hækkað um 27,2% milli fjárlaga áranna 2017 og 2022, en til samanburðar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 16,3% frá árinu 2017 fram í desember 2021. Því hafa útgjöld ríkisins hækkað um 9,4% umfram almenna verðlagsþróun á umræddu tímabili, að því er fram kemur í greiningu hagfræðideildar Landsbankans.

Fimm stærstu útgjaldaflokkar á tímabilinu eru allir á sviði félags- og heilsumála, en flokkarnir nema samtals um 46% af rammasettum útgjöldum í fjárlögum ársins 2022. Sjúkrahúsaþjónusta er langstærsti málaflokkurinn í fjárlögum ársins 2022, eða um 136 milljarðar króna, og hefur málaflokkurinn hækkað um tæpa 33 milljarða milli fjárlaga, langmest allra málaflokka.

Mikil aukning í útgjöldum til nýsköpunar

Ef skoðuð er hlutfallsleg breyting á útgjöldum einstakra málaflokka má sjá að útgjöld til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hefur hækkað um 106%, langmest allra málaflokka. Jafnframt hafa útgjöld til sveitarfélaga og byggðamála aukist hlutfallslega um tæp 70% milli fjárlaga. Það ber þó að hafa í huga að málaflokkar eru misstórir og þarf mikil hlutfallsleg aukning ekki að fela í sér mikil útgjöld.

Félags- og heilsumál virðast vera í forgangi hjá ríkisstjórninni ef tekið er mið af aukningu einstakra málaflokka í krónum. Eins og áður kom fram nema málaflokkar á því sviði nánast helming útgjalda í fjárlögum ársins 2022.