Allir þekkja hvað ferðaþjónustan hefur vaxið ört, það sér hver maður. Hvarvetna blasir við nýsköpun í atvinnulífi tengdu ferðaþjónustu og fjárfestingin hefur verið feykileg, bæði hjá stórfyrirtækjum, fjölskyldufyrirtækjum og einyrkjum. En menn þekkja það líka hvað litlu má skeika í þeim efnum. Hremmingar flugfélaganna hafa ekki farið fram hjá neinum og hjá smærri aðilum gætir aukinnar hagræðingar og samruna. Samt hefur engin sérstök ógæfa dunið yfir, hvort sem er af náttúrunnar eða manna völdum.

Ótrúlegur vöxtur

Það er þó ekki víst að allir átti sig á því hvað ferðageirinn hefur stækkað ótrúlega ört og orðið ótrúlega fyrirferðarmikill á umliðnum árum. Tölfræði alþjóðaferðaráðsins (World Travel & Tourism Council – WTTC) dregur það vel fram, en grein þessi byggir mikið til á henni.

Það er til dæmis merkilegt að Ísland skuli komið í 67. sæti landa heims eftir heildarframlagi ferðaþjónustu til landsframleiðslu. Í peningum talið. Ef hins vegar er horft á hlutfallslegt framlag ferðaþjónustu er Ísland 17. mesta ferðamannaland heims! Árið 2008 námu beinar tekjur af ferðaþjónustu á Íslandi liðlega 60 milljörðum króna (á gengi 2017), en í fyrra er áætlað að þær hafi verið hartnær 230 milljarðar króna, nánast fjórfalt meiri.

Ef horft er á þennan vöxt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), þá var beinn hlutur ferðaþjónustunnar í VLF um 3% árið 2008 en var um 8,5% árið 2018, sem er nærri þreföldun á mesta og lengsta uppgangstíma í efnahagslífi Íslendinga. Svipaða sögu er að segja ef litið er til þess hve margir höfðu atvinnu af ferðaþjónustu í landinu. Árið 2008 voru það um 6.000 manns en voru í fyrra liðlega 14.000. Árið 2008 höfðu um 3,5% starfandi fólks atvinnu af ferðaþjónustu, en í fyrra nær 7,5%.

Óbein og afleidd áhrif

Það er nú gott og blessað, en þar ræðir þó aðeins um hinn beina þátt ferðaþjónustunnar. Þegar horft er á framlög og störf, sem tengjast henni óbeint og með afleiddum hætti, þá margfaldast þessar tölur. Árið 2018 mátti rekja 36,6% allra starfa í landinu til ferðageirans og að um 35% VLF væru þaðan kominn. Spáð er að það hlutfall verði 46,9% að 10 árum liðnum, alls 70.500 störf, en 21.000 störf með beinum hætti ef allt fer sem horft hefur. Það er auðvitað ekki svo, að það sé þriðjungur starfa í landinu algerlega undir ferðaþjónustunni kominn, flest þeirra sinna fleiru og ef í harðbakkann slær munu vafalaust margir geta fundið sér önnur verkefni eða reyrt að sér sultaról um hríð. En það hefur samt sín áhrif, svo að óverulegur samdráttur í ferðaþjónustu mun hafa mikil og víðtæk áhrif. Bæði beint og óbeint. Þar er opinberi geirinn ekki undanskilinn, sem hefur notið stóraukinna tekna af ferðaþjónustu og skyldum greinum í miklum mæli.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .