Íslendingar hafa löngum verið talin ferðaglöð þjóð og ferðaskrifstofur hér á landi bjóða upp á mikið magn af skipulögðum ferðum til útlanda. Gott úrval er af sólarlandaferðum og einnig geta landsmenn fundið sér borgarferðir, golfferðir, fótboltaferðir og ýmsar aðrar ferðir við sitt hæfi.

Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman Ferða, segir að mikil aukning hafi átt sér stað í sölu í ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar frá því í fyrra.

„Salan í ferðirnar okkar hefur gengið mjög vel og það hefur orðið mikil aukning frá því í fyrra. Einn af stærstu póstunum okkar eru hópaferðirnar, sem fyrirtæki nýta sér mikið fyrir árshátíðarferðir sem og annars konar fyrirtækjaferðir erlendis. Þessar ferðir eru orðnar stór partur af okkar fyrirtæki. Svo er sólin auðvitað alltaf vinsæl, sérstaklega núna þegar sólin hefur lítið látið sjá sig hér á landi. Tenerife og staðir á Spáni eru mjög vinsælir áfangastaðir og salan er mikil í þessar ferðir.“

Eftirspurn sjaldan verið meiri

Að sögn Jakobs Ómarssonar, markaðsstjóra Vita, hefur salan í ferðir ferðaskrifstofunnar gengið mjög vel og eftirspurnin eftir utanlandsferðum verið mjög mikil.

„Við finnum mikinn meðbyr hjá okkur í Vita og fólk virðist vera mjög ánægt með þjónustuna sem við erum að veita. Við erum mikið að bjóða flug á okkar áfangastaði með Icelandair og fólk virðist vera mjög ánægt með þá þjónustu. Til dæmis eru betri sætin mjög vinsæl og eru fljót að seljast upp. Núna erum við að klára sumaráætlun okkar og verið er að selja í síðustu sæti ferða okkar þetta sumarið. Svo í október tekur vetraráætlunin við og hefur selst vel í þær ferðir og nú þegar er uppselt í nokkrar.

Meðal vinsælustu ferða okkar er ný ferð sem við bjóðum upp á til Cabo Verde [Grænhöfðaeyja] og fólk hefur tekið vel í þessa nýjung. Við bjóðum einnig upp á ferðir til Kúbu og Marrakesh. Líkt og undanfarin ár hefur salan í þær ferðir gengið ljómandi vel. Svo eru gömlu góðu ferðirnar til Kanarí, Tenerife og Alicante ávallt vinsælar. Mesti farþegafjöldinn okkar er í þessum sólarferðum en auk slíkra ferða bjóðum við upp á mikið úrval af annars konar ferðum. Við buðum til dæmis upp á ferðir á leiki Íslands á HM í sumar og þær ferðir voru vinsælar og gengu ótrúlega vel. Einnig bjóðum við upp á þjónustu við fyrirtæki og sjáum um að skipuleggja viðskiptaferðir fyrir þau. Við erum með sér viðskiptadeild sem sér meðal annars um að panta flug, hótel eða hvaða aðra þjónustu sem óskað er eftir, fyrir fyrirtæki í viðskiptaferðum þeirra erlendis.“

Ronaldo eykur vinsældir ítalska boltans

„Salan í fótboltaferðirnar hefur verið svipuð og undanfarin ár en salan í slíkar ferðir hefur verið aðeins rólegri eftir stórmót hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Við tókum eftir því eftir EM árið 2016 að haustið þá var aðeins rólegra miðað við árið á undan. Við fundum einnig fyrir því að fólk virtist aðeins vera að jafna sig eftir HM, en núna virðist fólk vera að taka við sér og salan farin að taka við sér. Síðustu ár hafa ferðir á enska boltann verið mjög vinsælar, en við höfum tekið eftir því undanfarið að margir vilja fara í fótboltaferðir til Spánar, Þýskalands og Ítalíu. Ítalski boltinn er að verða ansi vinsæll aftur og koma Cristiano Ronaldo í deildina hefur aukið vinsældir hans. Fólk er því byrjað í auknum mæli að sækja í fótboltaferðir á fleiri stöðum en á Englandi, þó að ferðir á enska boltann séu alltaf mjög vinsælar og standi ávallt fyrir sínu,“ segir Þór.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu Icelandair.
  • Viðtal við verkalýðsforkólfa um stöðu kjarasamninga.
  • Úttekt á afkomu stærstu tryggingafélaganna.
  • Viðtal við Orra Hauksson, forstjóra Símans.
  • Umfjöllun um uppgjör Skeljungs.
  • Sérblað um bíla fylgir blaðinu.
  • Óðinn skrifar um skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um Pírata í borgarstjórn.