Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA, og Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar segja að þó svo að reksturinn hafi gengið í gegnum vægast sagt erfitt tímabil í COVID-19 heimsfaraldrinum virðist hann vera að taka við sér að einhverju leyti. „Síðasta flugið sem við flugum var um miðjan mars og síðan stoppaði allt í fjóra mánuði. En það er allt að fara af stað hjá okkur núna. Við til að mynda flugum til Tenerife á laugardaginn og á mánudaginn til Alicante,“ segir Þráinn og bætir við að það sé töluverð eftirspurn eftir ferðum til þessara staða. „Margir sem eru að fara til þessara staða eru að fara í annaðhvort hús eða íbúðir en ekki á hótel þannig að fólk er þar að finna fyrir einhvers konar öryggi því þetta er svipað og bara vera í sumarbústað á Íslandi. Með því móti þá er fólk í minna samneyti við annað fólk og því minni hætta á COVID-smiti þar sem fólk er í minna sambandi við heimamenn og aðra túrista.“ Hann bætir við að fyrirtækið fylgist grannt með stöðu mála á svæðunum og séu starfsmennirnir tilbúnir að bregðast við.

Hafa endurgreitt hálfan milljarð

Þráinn segir að endurgreiðslur til viðskiptavina hafi sett strik í reikninginn og hafi endurgreiðslur fyrirtækisins til viðskiptavina þess samtals numið um það bil hálfum milljarði króna. „Alveg síðan COVID-19 heimsfaraldurinn hófst höfum við endurgreitt okkar viðskiptavinum og mikill tími hefur farið í það. Þegar á heildina er litið þá höfum við endurgreitt rétt um hálfan milljarð króna samtals til viðskiptavina okkar.“ Hann bætir við að bókunarflæðið um þessar mundir sé mun minna heldur en í venjulegu árferði. „Það var náttúrulega mikið bókað í júlí hjá okkur en í mars hættum við að fljúga og buðum þeim einstaklingum sem áttu bókaðar ferðir hjá okkur að færa ferðina, fá inneignarnótu eða endurgreiðslu,“ segir Þráinn og bætir við að það sé mikið í pípunum hjá fyrirtækinu þrátt fyrir erfitt árferði. „Við höfum hafið sölu á ferðum sem farnar verða næsta vetur og sumar meðal annars til Spánar. Síðan seldist upp í jólaferð sem við hófum að selja í í vor. Þannig það er mikið í pípunum hjá okkur þó svo að bókunarflæðið hjá okkur sé ekki jafnmikið og í venjulegu árferði.“

Vetrarsólin vinsæl

Þráinn og Þórunn segjast bæði vera bjartsýn á komandi sumar og haust og segjast hafa fundið fyrir því að fólk sé að bóka ferðir til sólarlanda yfir veturinn. „Ég mjög bjartsýnn á framhaldið. Við höfum fundið fyrir því að fólk er að bóka frí í vetrarsólina og einnig jólaferðir sem og borgarferðir þannig að þetta er allt að fara af stað,“ segir Þráinn en bætir við að staðan sé þó ekki eins og hún sé í venjulegu árferði. „Það er líka mikil eftirspurn núna eftir ferðum til Evrópu, til dæmis til Kanarí og Tenerife en við höfum einnig fundið fyrir mikilli aðsókn til Flórída í Ameríku. Þetta eru þeir staðir sem fólk ferðast hvað mest til á veturna og svo má líka bæta við að um þessar mundir þá er litið á Kanarí sem eitt af þeim öruggari löndum til að ferðast til.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .