Kortavelta ferðamanna í dagvöru á fyrstu 5 mánuðum ársins var 16% meiri en á sama tímabili í fyrra. Vöxtur kortaveltu þeirra á veitingahúsum var hinsvegar aðeins rúm 4%.

Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir í samtali við Fréttablaðið um málið merki um að ferðamenn séu að verða sparsamari, þeir séu farnir að haga sér meira „líkt og hagsýnir neytendur“, sem eflaust megi rekja að miklu leyti til styrkingar krónunnar.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu að viðmælendur í ferðaþjónustu fyndu fyrir því að ferðamenn eyddu minna í veitingar og versluðu frekar matvörur í verslunum. Þessar tölur virðast renna stoðum undir þá upplifun þeirra.

Samtals keyptu ferðamenn dagvöru fyrir tæpa 3,3 milljarða með greiðslukortum á fyrstu 5 mánuðum ársins, en 2,8 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Þá keyptu þeir veitingar fyrir 9,4 milljarða, samanborið við rétt rúma 9 í fyrra.