Hugh Short, framkvæmdastjóri bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt Capital – sem á helmingshlut í Keahótelum – segir stóru spurninguna nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun, vera hver muni vilja ferðast aftur. „Þar til við fáum bóluefni munu mun færri vilja ferðast, og þeir sem það gera verða fyrst og fremst yngra fólk með minna á milli handanna.“

Miklu hefur verið tilkostað til að fá hingað eldri ferðamenn með djúpa vasa á síðustu árum. Bláa lónið hefur aukið þjónustustig sitt og hækkað verð, fimm stjörnu hótel hafa opnað og mikið lagt upp úr sérfræðiráðstefnum, svo dæmi séu tekin. „Eldra fólk eins og við vitum er að jafnaði útsettara fyrir kórónuveirunni, og verður því mun meira hikandi við að hoppa upp í flugvél.“

Afdrif fluggeirans hafi mikil áhrif
„Það hvernig Icelandair reiðir af, og í hve miklum mæli erlend flugfélög munu fljúga hingað, mun skipta sköpum fyrir framtíð greinarinnar,“ segir hann, en erfitt sé að segja til um framtíð fluggeirans.

Í aðra röndina stefni í mikil tækifæri fyrir ný félög sem ekki verða hokin af skuldum eftir faraldurinn; kaup- og leiguverð flugvéla verði lágt, framboð vinnuafls nægt og lendingarleyfi á flugvöllum ódýr. Á móti sé mikil óvissa um eftirspurn og tekjur, og óvíst hversu mikið fjármagn fáist til að hefja flugrekstur.

Á heimsvísu muni það taka ferðamennsku mörg ár að ná sér , og það hversu stóran hluta hennar við fáum hingað til lands og hversu hratt muni velta að verulegu leyti á því hversu vel Icelandair – sem eina eftirlifandi innlenda flugfélaginu – takist að ná sér á strik. „Rekstrarvandi innlenda fluggeirans hefur tvímælalaust tekið vindinn úr seglum ferðaþjónustunnar.“

Nánar er rætt við Short í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .