Alls fóru 11.253 farþegar úr landi um Keflavíkurflugvöll í júnímánuði, þar af 5.943 útlendingar og 5.310 Íslendingar, samkvæmt tölum Ferðamálastofu . Hlutfall erlendra ferðamanna nam því 53% af heildarfarþegum.

Fjöldi ferðamanna sem fóru í gegnum Leifsstöð fækkaði um 97% frá sama mánuði í fyrra. Til samanburðar var samdrátturinn í maí milli ára um 99%. Þjóðverjar voru fjölmennastir af erlendum farþegum í síðasta mánuði eða um 20%. Danir voru næstfjölmennastir eða um 18% af erlendum ferðamönnum.

Heildarfjöldi ferðamanna á fyrstu sex mánuðum ársins dróst saman um 62% frá fyrra ári, eða úr tæplega 900 þúsund ferðamönnum fyrri helmings ársins 2019 í 342 þúsund ferðamenn í ár. Þar munar mest um 160 þúsund færri bandarískra ferðamanna.