Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 688 þúsund árið 2021. Það er um 209 þúsund fleiri en árið 2020 og nemur aukningin 44% milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vef Ferðamálastofu . Brottfarirnar voru svipaðar á nýliðnu ári og árið 2012.

Ferðatakmörkunum var aflétt í júní 2021 og tók ferðamönnum að fjölga í kjölfarið. 95% brottfara árið 2021 voru á síðari hluta ársins, frá júní til desember. 44,3% brottfara voru í sumarmánuðunum júní-ágúst, eða 304 þúsund talsins og nemur aukningin um 164% milli ára. Þegar litið er til fjórða ársfjórðungs má sjá að erlendum farþegum fjölgaði þrettánfalt á sama tímabili milli ára. Heildarfjöldi brottfara á seinni hluta árs 2021 þrefaldaðist milli ára en var aftur á móti tæplega helmingi færri á sama tímabili árið 2019.

Ferðaþjónustan á enn langt í land í að ná sömu brottfarartölum og voru árið 2019, fyrir faraldurinn. Í grein Ferðamálastofu segir að þegar árin 2019 og 2021 eru borin saman má sjá að brottfarir eru meira en 100 þúsund færri í hverjum mánuði á tímabilinu janúar-ágúst en á bilinu 55 til 75 þúsund færri í september-desember.

Þriðjungur brottfara árið 2021 voru Bandaríkjamenn, en fjöldi þeirra fjórfaldaðist milli ára. Þjóðverjar, Bretar og Pólverjar koma þar á eftir. Samtals voru brottfarir erlendra farþega frá landinu með fyrrnefnd þjóðerni um 63% árið 2021.