Fjöldi leita að flugi til Íslands á Google hefur dregist saman frá því í fyrra og er svipað því sem var árið 2016. Vefmarkaðsstofan The Engine tók saman leitarvélagögnin frá Google og bar saman við rauntölur yfir komur ferðamanna til landsins. Gögnin benda til þess að komum ferðamanna gæti fækkað á árinu og fjöldi ferðamanna því orðið svipaður því sem gerðist árið 2016.

Aðferðafræði The Engine var með þeim hætti að högn um frasann „flug til Íslands“ voru tekin saman á nokkrum tungumálum en hann þótti bera höfuð og herðar yfir aðra leitarfrasa. Leit að flugi og undirbúningsvinna fyrir ferðalag fer þó að jafnaði fram nokkru áður ferðin er farin og gögnin því stemmd af við komur ferðamanna 8 mánuðum síðar. Mest var leitað að frasanum í janúar og komur ferðamanna flestar í ágúst en með þessari aðferðafræði stemmdu gögnin nokkuð vel við rauntölur um ferðamenn.

Þá bendir The Engine á að þó um sé að ræða góða vísbendingu um þróun ferðamannafjölda þurfi að gera vissa fyrirvara á, enda aðeins um einn mælikvarða að ræða. Til að mynda nær fjöldi leita illa til Kínverja en komum þeirra hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Þá er einnig um meðaltalstölur að ræða og ljóst að misjafnt er eftir menningu og aðstæðum hversu langt fram í tímann ferðin er skipulögð.