Hlutur ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu dróst saman um helming í fyrra og var 3,9% en árið 2019 var hluturinn 8%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni .

Útgjöld erlendra og íslenskra ferðamanna hér landi námu 220 milljörðum króna á árinu sem er 58% samdráttur frá árinu áður.

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna drógust saman um 75% á árinu og námu heildarútgjöld þeirra um 98 milljörðum króna. Alls komu hingað til lands um 490 þúsund ferðamenn á síðasta ári en þeim fækkaði um 81% frá árinu áður.

Útgjöld íslenskra ferðamanna í fyrra námu 122 milljörðum króna og hlutur íslenskra ferðamanna var 56% af heildarútgjöldum ferðamanna á landinu miðað við 27% árið 2019. Þrátt fyrir það drógust heildarútgjöld íslenskra ferðamanna saman um 14% á árinu en mikið var um afslætti í fyrra.

Stærsti hluti útgjalda íslenskra ferðamanna á árinu var gistiþjónusta sem jókst um 18% frá árinu áður og þá fjölgaði gistinóttum þeirra um 40%. Útgjöld vegna veitingaþjónustu jókst um 32% á tímabilinu.