Dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, benti á að sprengivöxturinn í ferðaþjónustu undanfarin ár hafi að miklu leyti verið sjálfsprottinn á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans 2017. Þar var ný greining Hagfræðideildar á ferðaþjónustunni kynnt. Hægt er að kynna sér erindi Daníels ásamt skýrslunni á umræðusíðu Landsbankans.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í gær þá stóð ferðaþjónusta undir 24% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Þá jukust tekjur af ferðaþjónustu um 15% árlega að raunvirði frá árinu 2012. Í dag skapar greinin um 39% af útflutningstekjum. Árið 2012 starfaði 10% af vinnuafli við greinina, í dag veitir greinin um 13% af vinnuafli atvinnu.

Í erindi Daníels kom einnig fram að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað um 40% í fyrra, en á fyrstu átta mánuðum ársins hefur fjölgunin verið hægari eða 30%, miðað við sama tíma í fyrra. Þróunin innan árs hefði líka verið frábrugðin því sem verið hefur því ferðamönnum hefði fjölgað mun meira fyrstu fjóra mánuði ársins, utan háannatíma, en í fyrra eða alls um 56% samanborið við 35% fjölgun á sama tímabili 2016. Fjölgun yfir háannatímann, það er að segja júní, júlí og águst, var hins vegar hlutfallslega helmingi minni en í fyrra eða 17% í ár samanborið við 31% í fyrra.

„Þetta er sterk vísbending um að við séum að nálgast hámarksafkastagetu yfir sumarmánuðina og frekari vaxtarmöguleikar á því tímabili séu að öðru óbreyttu takmarkaðir,“ sagði Daníel.