Starfsfólki í ferðaþjónustu fjölgaði um rúmlega 16 þúsund frá árinu 2010 til 2018 sé tekið mið af meðaltölum áranna. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands um einkennandi atvinnugreinar í ferðaþjónustu. Mest var fjölgunin í rekstri gististaða og veitingasölu og -þjónustu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

„Nokkur fækkun starfsfólks var í greininni milli 2008 og 2009 en svo mikil og stöðug fjölgun allt fram til ársins 2018. Meðalfjölgun á ári á öllu tímabilinu var 8,7% og frá árinu 2010 fram til 2018 var meðalfjölgunin á ári 11,6%,“ segir í Hagsjánni.

Þá kemur einnig fram að þegar litið sé á fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 og 2019, hafi fækkað um u.þ.b. 630 í þessum greinum, fyrst og fremst í rekstri gististaða. WOW air var enn í rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 þannig að áhrifa gjaldþrots félagsins gætir ekki í þessum tölum.

Mesta fjölgun í gisti- og veitingarekstri

Starfsfólki fjölgaði um rúm 40 þúsund frá 2010-2018, samkvæmt tölum Hagstofunnar um fjölda starfsfólks á vinnumarkaði hér á landi. Ferðaþjónustan skapaði því fjögur af hverjum tíu störfum sem urðu til á þessum 8 árum.

„Sé litið á þær greinar þar sem fjölgun starfsfólks var mest kemur ekki á óvart að margar þeirra tengjast ferðaþjónustu. Mesta fjölgunin var í rekstri gististaða og veitingarekstri, eða um tæp 8 þúsund manns. Fjölgun var næstmest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 5.700 manns, en frá 2008 til 2010 hafði starfsfólki í greininni fækkað um helming, úr 15.000 manns niður í 7.500. Rekstur ferðaskrifstofa og tengd starfsemi var með þriðju mesta fjölgunina og þar á eftir komu flutningar með flugi og smásöluverslun. Þær níu greinar sem voru með mesta fjölgun starfa á þessu tímabili skiluðu um 27.500 nýjum störfum, eða tæplega 70% nýrra starfa í hagkerfinu á þessum tíma,“ segir í Hagsjánni.

Loks segir að langmesta fækkun starfa á milli áranna 2010 og 2018 hafi verið í fjármálaþjónustu (án tryggingarfélaga og lífeyrissjóða) en þar fækkaði um 1.100 manns, til viðbótar við fækkun um 1.300 manns á tímabilinu 2008-2010, eða um 2.400 manns frá 2008-2018. Næstmesta fækkunin hafi svo átt sér stað í útgáfustarfsemi og í fiskveiðum og fiskeldi. Fækkun starfsfólks í þeim 10 greinum þar sem fækkunin var mest hafi samtals verið um 2.800 manns frá 2010 til 2018.