Gísli Hauksson stjórnarformaður Gamma segir erlenda viðskiptavini félagsins hafa sýnt áhuga á að fjárfesta í innviðaverkefnum, fasteignum sem og skráðum og óskráðum fyrirtækjum hér á landi. Segir hann þetta mikla breytingu frá því fyrir hrun þegar erlendir aðilar höfðu nær eingöngu áhuga á vaxtamunarviðskiptum við Seðlabankann að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Stærstu verkefnin okkar eru fyrir tvö íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Í öðru tilvikinu er áhugi á því að selja allt fyrirtækið, en í hinu tilvikun horfa menn til þess að fá inn virkan 25% eiganda,“ segir Gísli en alls vinnur félagið að sjö verkefnum að þessu tagi.

„Þetta er iðnfyrirtæki, gamalgróið tækifyrirtæki með lausn sem það vill koma á framfæri erlendis, fyrirtæki í lyfjageira með áhugaverða nýsköpunarvöru, og fasteignafélag sem vill selja fasteignir til erlendra aðila, svo eitthvað sé nefnt.“

Gísli sem segir það frábært að fá erlenda aðila til að taka áhættuna með okkur í íslensku atvinnulíf. „Auk þess koma erlendir aðilar oft með annan hugsunarhátt og annað tengslanet, og þetta dregur úr einsleitni í íslensku atvinnulífi.“