Skipulagðar skoðunarferðir um Hörpu sem farnar verða um húsið á klukkutíma fresti munu kosta 1.500 krónur. Eins mun Harpa nú rukka 300 krónur fyrir að nýta sér snyrtingu Hörpunnar á neðstu hæðinni. Frá þessu er greint í frétt Mbl.is . Svanilhdur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að þetta snúist um að taka hófstillt gjald fyrir góða þjónustu.

Að sögn Svanhildar er þetta tilraunaverkefni í sumar. Hún segir að verkefnið fari vel af stað. Um 3.000 manns sækja Hörpu heim daglega og segir forstjórinn að snyrtingurnar hafi verið gífurlega mikið notaðar. Hún tekur þó fram að þeir sem eiga erindiá viðburði, fundi, ráðstefnur eða veitingastaði í húsinu þurfi ekki að greiða.

Áður var greint frá því að Harpa myndi hefja aðgansstýringu um ákveðin svæði hússins. Að sögn Svanhildar Konráðsdóttur forstjóra Hörpu er ástæðan fyrir breytingunum sú að gestir hússins hafi nýtt sér opin rými sem nokkurs konar umferðarmiðstöð eða hvíldarstað. Þar leggist gestir jafnvel til hvílu og smyrja sér samlokur víðsvegar í húsinu. Þetta finnst stjórnendum Hörpu ekki hæfa hlutverki og yfirbragði hússins og telja þetta draga úr upplifun allra sem sækja húsið heim.