Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands fækkaði erlendum ferðamönnum um 19% í apríl miðað við sama mánuð á síðasta ári. Samtals lögðu 106 þúsund ferðamenn leið sína til landsins í síðasta mánuði samanborið við 131 þúsund í apríl 2018. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er þetta mesta fækkun erlendra farðþega milli sömu mánaða í tvo áratugi, eða svo langt sem gögn ná, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar.

„Sambærileg fækkun milli mánaða var í maí 2010 þegar erlendum farþegum fækkaði um rúm 18%. Þess má geta að í apríl 2010 var eldgos í Eyjafjallajökli sem lamaði flugumferð í Evrópu og varð til þess að um það bil 95.000 skipulögðum flugferðum á Íslandi og í Evrópu var aflýst. Þá fækkaði erlendum farþegum þó einungis um 6.300.

Umferð í gegnum Keflavíkurflugvöll í apríl 2019 dróst einnig verulega saman. Heildarfarþegahreyfingar drógust saman um 27% á milli ára, voru tæplega 475 þúsund í síðastliðnum apríl en 650 þúsund í apríl 2018. Heildarflughreyfingar, flugtök og lendingar, voru tæplega 7 þúsund í síðasta mánuði á meðan þær voru um 9.300 í apríl 2018. Þær drógust því saman um 25% á milli ára og eru sambærilegar því sem þær voru í apríl 2017 þegar þær voru um 6.800,” segir ennfremur í frétt Hagstofunnar.