Air Atlanta er íslenskt leiguflugfélag sem var stofnað árið 1986 og er með höfuðstöðvar í Kópavogi. ,,Undanfarin ár hefur Air Atlanta náð að byggja upp öflugan flota af Boeing 747-400 vélum, og náð sterkri stöðu á leigumarkaði með Boeing 747 breiðþotur. Samtals voru 14 Boeing 747-400 vélar í rekstri á árinu 2015, sem skiptust jafnt í sjö farþegavélar og sjö fraktvélar. Allar Boeing 747-400 vélarnar voru í föstum verkefnum 2015, sem tryggði félaginu stöðugan rekstur á árinu,“ segir Hannes Hilmarsson, framkvæmdastjóri Air Atlanta.

Hannes segir að Air Atlanta hafi frá upphafi sérhæft sig í blautleigu (wet lease) á flugvélum til annarra flugfélaga, og hefur 30 ára reynslu að baki í flugrekstri út um allan heim. ,,Þó að félagið starfi á íslensku flugrekstrarleyfi, þá telur fjölbreyttur og samhentur starfsmannahópur félagsins 52 þjóðerni sem búa yfir gríð- arlegri reynslu og þekkingu í alþjóðlegum flugrekstri sem skapar grunninn að samkeppnishæfni félagsins. Sveigjanleiki og viðbragðsflýtir hefur alltaf verið styrkleiki Air Atlanta, sem endurspeglast í því hvernig félagið stóð af sér kreppu og samdrætti á fraktmarkaði á árunum 2008-2012,“ segir Hannes.

Á síðasta ári var Air Atlanta stærsta leiguflugfélagið í heiminum á sviði pílagrímaflutninga með í kringum 1,5 milljónir farþega, og á sama tíma og félagið hefur náð að styrkja stöðu sína á fraktmarkaði. Flugfloti félagsins taldi 16 breiðþotur um síðustu áramót.

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .