Vísir í Grindavík mun nota nýjar, umhverfisvænar neytendapakkningar fyrir íslenskan fisk á Bandaríkjamarkaði, nái vinningstillögur í Hnakkaþoni HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, fram að ganga. Úrslit keppninnar voru kynnt um helgina.

Úrlausn sigurveganna bar titilinn „Wild Icelandic Cod“ og fólst í hönnun nýrra neytendapakkninga til að auðvelda Vísi að selja ferskan fisk beint á Bandaríkjamarkað.

Hætti notkun frauðplastkassa

Umbúðirnar leggja áherslu á ferskleika, gæði, umhverfisvernd og sögu Vísis en innihalda líka einfaldar uppskriftir, sem henta meðvituðum neytendum í nútímasamfélagi.

Einnig benti liðið á kosti þess að nota umhverfisvæna pappakassa í stað hinna hefðbundnu frauðplastkassa í flutningum á ferskum fiski. Pappakassarnir eru ódýrari, fyrirferðarminni og taka mun minna pláss í flutningum.

Sigurliðið skipa nemendur í fjármálaverkfræði og viðskiptafræði, þeir Bjarki Þór Friðleifsson, Fannar Örn Arnarsson, Jóhannes Hilmarsson, Ómar Sindri Jóhannsson og Sigurður Guðmundsson.

Heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku

Hópurinn mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Í Hnakkaþoninu reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Í áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni unnu nemendur með Vísi í Grindavík, Marel og prentsmiðjunni Odda að því að móta tillögur um hvernig Vísir geti aukið fullvinnslu og pökkun á ferskfiski á Íslandi, með aukinni áherslu á neytendapakkningar og áttu að vega kostnað og ávinning slíkra breytinga. Fimm lið skiluðu inn fjölbreyttum tillögum.

Sókn í umhverfis- og markaðsmálum

Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri Vísis í Grindavík sagði það hafa verið virkilega fróðlegt að heyra mismunandi hugmyndir um hvernig umhverfisvænar framtíðarumbúðir geti litið út.

„Það var magnað hvað krakkarnir náðu að gera margt á stuttum tíma og liðin unnu frábæra vinnu í að benda á ný tækifæri fyrir Vísi. Þau náðu að kynnast starfsemi fyrirtækisins vel á stuttum tíma og bentu á frábær tækifæri til sóknar í umhverfis- og markaðsmálum.“

Þá segir Erla áherslu HR á að vera í sterkum tengslum við atvinnulífið ekki síður mikivæga fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. „Við viljum fá gott, menntað fólk til starfa og viljum að hæfir einstaklingar sjái störf í sjávarútvegi sem spennandi framtíðarstörf.“

Íslenskur sjávarútvegur er margþætt atvinnugrein sem kallar á mikla þekkingu og sérhæft starfsfólk. Meðal viðfangsefna hans eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun og tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira.

Liður í áherslu á raunhæf verkefni

Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR.

Þá er eitt af meginmarkmiðum Hnakkaþonsins að minna nemendur á að arðbærni og góð umgengni um náttúruna verða að fara saman ef atvinnustarfsemi á að vera sjálfbær.

Hnakkaþonið er einnig liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á raunhæf verkefni í námi, í samvinnu við íslenskt atvinnulíf.