Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,19, í 2.155,0 stig, í 4,3 milljarða heildarviðskiptum á hlutabréfamarkaði í dag.

Gengi bréfa Skeljungs hækkuðu mest í kauphöllinni í dag, eða um 2,51%, í 428 milljóna viðskiptum og fór gengi bréfanna upp í 8,98 krónur. Það voru jafnframt þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í kauphöllinni í dag.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 856 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 0,36%, og fóru þau í 139,50 krónur. Hefur lokagengi bréfa félagsins ekki verið jafnhátt síðan 20. febrúar 2017, en hæst fór það nokkrum dögum áður, eða 14. febrúar 2017 í 145 krónur.

Mestu viðskiptin voru eftir sem áður með bréf Marel, eða fyrir 1 milljarð og 28 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,16%, í 620 krónur.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 2,38%, upp í 38,70 krónur, í 90 milljón króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var hjá Högum, en bréf félagsins hækkuðu um 1,75% og var lokagengi þeirra eftir viðskipti dagsins 49,50 krónur eftir 95 milljóna króna viðskipti.

Síminn lækkaði hins vegar mest, eða um 1,30%, niður í 5,30 krónur, í 96 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa TM, eða um 0,83%, en heildarviðskiptin með bréf félagsins námu 38 milljónum króna og fór gengið niður 35,95 krónur. Þriðja mesta lækkunin var loks á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 0,78%, niður í 190,0 krónur, í 100 milljóna viðskiptum.